UPPFÆRT: Vegna óviðráðanlegra aðstæðna hefur The Nightfly tónleikunum á Sviðinu verið frestað til 12. maí. Í tilkynningu frá Sviðinu segir að þeir miðaeigendur sem komast ekki á tónleikana á nýju dagsetningunni geti fengið endurgreitt.
—
Steely Dan var ein áhrifamesta hljómsveit áttunda áratugarins. Tónlistin var einstök og frumleg blanda af djass- og popptónlist sem heillaði tónlistaráhugamenn og ekki síður tónlistarmenn á öllum aldri og hefur gert æ síðan.
Donald Fagen og Walter Becker stofnuðu hljómsveitina í byrjun áttunda áratugarins og sendu frá sér frábærar plötur sem skipa sér margar hverjar á stall með bestu plötum áratugarins. Árið 1982 gaf Fagen svo út meistaraverkið The Nightfly, sem er án nokkurs vafa með betri plötum níunda áratugarins.
Í september síðastliðnum flutti einvalalið tónlistarmanna tónlist Steely Dan í troðfullu Bæjarbíói og leikurinn var endurtekinn í nóvember og aftur var uppselt. Nú hefur hópurinn ákveðið að flytja The Nightfly í heild sinni, ásamt bestu lögum Steely Dan, á hinum flunkunýja tónleikastað Sviðinu á Selfossi, laugardaginn 10. mars næstkomandi.
Það verður engin smá uppstilling á sviðinu en meðal þeirra sem skipa hljómsveitina og koma fram á Sviðinu eru Eiður Arnarson, Friðrik Karlsson, Jóel Pálsson, Jóhann Hjörleifsson, Karl Olgeirsson, Þórir Úlfarsson, Stefanía Svavars og Íris Lind Verudóttir.
Tónleikagestir mega búast við að heyra lög eins og Do It Again, Reelin’ In The Years, Rikki Don’t Lose That Number, Kid Charlemagne, Peg, Josie, Babylon Sisters, Hey Nineteen auk allra laganna á The Nightfly.
Miðasala er í fullum gangi á Sviðinu.