Myndlistafélag Árnesinga og handverkshópurinn á Stokkseyri opnuðu sýningu og markað í Gimli á Stokkseyri í gær við upphaf menningarmánaðarins október.
Félagar í myndlistafélaginu og handverkshópnum tóku á móti gestum og buðu upp á léttar veitingar í takt við lifandi tónlist félaga úr Harmonikkufélagi Selfoss og nágrennis.
Ásdís Hoffritz, félagi í myndlistafélagi Árnesinga, bauð gesti velkomna og fór yfir sögu félagsins. Katrín Ósk Þorgeirsdóttir ávarpaði gesti fyrir hönd handverkshópsins og að lokum steig á svið Kjartan Björnsson, formaður menningarnefndar Árborgar sem setti menningarmánuðinn október formlega og fór yfir dagskrá mánaðarins.
Fjöldi fólks var mættur til að skoða myndir og handverk enda húsnæðið mjög hentugt sem sýningarsalur og markaðurinn í kjallaranum vel uppsettur hjá handverkshópnum.
Næstu menningarviðburðir eru Landsmót skólalúðrasveita sem fram fer á Selfossi núna um helgina og svo Danska kvöldið sem haldið verður á Hótel Selfoss fim. 13. október nk.
Handverkshópurinn ásamt Braga Bjarnasyni, íþrótta- og tómstundafulltrúa Árborgar. sunnlenska.is/Björn Ingi