Einarsvaka verður haldin á morgun, laugardag, kl. 14 í Bíó Paradís við Hverfisgötu. Þar verður æviferill þjóðskáldsins Einars Benediktssonar og hinnar merku konu Hlínar Johnson reifaður og fjallað um árin þeirra í Herdísarvík.
Það er Grimmhildur, félag H-nemenda (e. mature students) á Hugvísindasviði, í samstarfi við Guðrúnu Ásmundsdóttur leikkonu og leikstjóra, sem býður til Einarsvöku.
Einarsvaka er haldin til að vekja athygli á því að í Herdísarvík eru mikilvægar sögu- og menningarminjar sem lítið hefur verið sinnt og eru í mikilli hættu með að glatast. Með tilkomu Suðurstrandarvegar er staðurinn kominn í alfaraleið og því ætti að vera hægara um vik með verndunarstarf og uppbyggingu. Grimmhildur vill leggja sitt af mörkum í því starfi.
Erindi flytja þau Guðrún Ásmundsdóttir og Guðjón Friðriksson, sagnfræðingur, fræðimaður og höfundur ævisögu Einars Ben. Benedikt Erlingsson, leikari og leikstjóri verður með ljóðaupplestur. Þórhallur Barðason söngvari flytur lög með textum Einars við undirleik Steinunnar Halldórsdóttur.
Kaffiveitingar og meðlæti í anda Hlínar. Allir velkomnir.