Menningarveisla á afmælisári

Sólheimar fagna í ár 85 ára afmæli og verður Menningarveisla sett í tíunda skipti næstkomandi laugardag, þann 6. júní kl. 13:00.

Þetta árið mun Ómar Ragnarsson heiðra samfélagið með nærveru sinni og opna Menningarveisluna með formlegum hætti. Það eru allir velkomnir á opnunina en þá verða sýningar formlega opnaðar og verða fyrstu tónleikar Menningarveislunnar með íbúum Sólheima.

Metnaðarfull dagskrá hefur verið undirbúin og mun veislan standa fram til 22. ágúst. Í ár eru 30 ár síðan Reynir Pétur gekk hringinn í kringum Ísland með eftirminnilegum hætti.

Sett hefur verið upp sýning í íþróttaleikhúsi Sólheima til að minnast þess merka atburðar, en íþróttaleikhúsið er einmitt sú bygging sem safnað var fyrir með göngunni. Ljósmyndasýningar hafa verið settar upp, umhverfistengdar sýningar eru í Sesseljuhúsi auk þess sem fræðandi og skemmtilegir fyrirlestrar verða í boði í allt sumar.

Sýning á listmunum íbúa verður í Ingustofu, en þar verður að finna verk sem íbúar hafa unnið á vinnustofum Sólheima. Tónleikar eru alla laugardaga í Sólheimakirkju þar sem fjölbreyttur hópur listamanna mun koma fram. Lögð hefur verið sérstök áhersla á fjölbreytileika í dagskrá Menningarveislunnar og mun t.d. Háskólalestin koma í heimsókn, hestadagar verða í boði, brúðuleikhús og sænskur fjöllistahópur svo eitthvað sé nefnt.

Það eiga allir að geta fundið eitthvað við sitt hæfi, ókeypis er á alla viðburði og er það von íbúa Sólheima að sem flestir komi í heimsókn og njóta þess einstaka samfélags sem Sólheimar er og fagni með okkur 85 ára afmælisárinu.

Fyrri greinKristinn vann bronsverðlaun
Næsta greinRagnheiður íþróttamaður ársins