„Ég byrjaði að mála eitthvað að viti þegar við hjónin komum okkur upp sumarhúsi í Grímsnesinu árið 2006.
Birtan og endalaus fegurð íslenska hraunsins og mosans gaf mér innblástur í liti og form. Síðan vantaði líka eitthvað á veggina í bústaðnum og þannig byrjaði ég smátt og smátt,“ segir Rósa Traustadóttir sem sýnir um þessar mundir vatnslitamyndir í Listagjánni á Selfossi. Þetta er hennar fyrsta myndlistarsýning.
Rósa kennir jóga á Selfossi og vill hún meina að myndlistin og jógað sé náskylt. „Það er svo mikið jóga í því að mála, maður rennur einhvern veginn saman við litina og tímann. Finnst eiginlega eins og þetta sé ákveðið form af hugleiðslu.“
Þó að þetta sé í fyrsta skipti sem Rósa heldur opinbera sýningu á verkum sínum þá hafa myndlistarhæfileikar hennar áður vakið athygli. „Í sumar sendi ég mynd inn í stóru sýninguna í tengslum við Menningarnótt og fékk hana birta. Þannig sá einhver hana og þannig kom þetta til að ég var beðin um að setja upp sýningu í Listagjá Bókasafns Árborgar enda vinn ég þar líka sem bókasafnsfræðingur,“ segir Rósa.
Rósa segist geta ímyndað sér að það að setja upp sína fyrstu sýningu sé svolítið eins og að gefa út bók. „Þú ert að opinbera þig og opna fyrir eitthvað sem lengi hefur verið í ,,skúffunni”. Móðir mín, Svava Sigríður Gestsdóttir, sem er listmálari hvatti mig líka til að sýna og af henni hef ég fengið ráð og tilsögn. Annars er ég algerlega sjálfmenntuð í þessu og hef mest notað ýmis blöð og bækur til að læra af og prófa,“ segir Rósa sem notar vatnsliti við listsköpun sína.
„Ég mála helst það sem tengist náttúrunni og svolítið óhlutbundið, fólk fær ekki ákveðið fjall eða foss hjá mér meira svona annan heim og blóm eru mér mjög kær. Ég get endalaust andað að mér fegurð rósarinnar og töfra þrenningarfjólunnar og blágresið er í sérstöku uppáhaldi með sinn seiðandi bláa lit. Aðallega hef ég gaman af þessu og tíminn líður ógnarhratt þegar ég leyfi litunum að flæða frjálslega yfir pappírinn,“ segir Rósa að lokum.