Það er mikið um að vera hjá Leikfélagi Selfoss í leikhúsinu við Sigtún um þessar mundir.
Sýningum á hinu skemmtilega barnaleikriti Rúi og Stúi er nýlokið og vill leikfélagið þakka öllum þeim sem komu á sýninguna kærlega fyrir komuna en aðsókn og viðtökur voru einstaklega góðar. En þó að sú sýning hafi runnið sitt skeið er margt spennandi framundan.
Helgina 19. – 20. nóvember verður námskeið í gervi og förðun undir leiðsögn Kristínar Thors og eru enn laus pláss á námskeiðið. Námskeiðið er opið öllum en Kristín hefur mikla reynslu í sínu fagi.
Hið vinsæla Hugarflug verður haldið 26. nóvember en það er stuttverkasýning þar sem meðlimir leikfélagsins sýna ýmis stuttverk sem þeir vinna sjálfstætt. Fimm ár eru síðan fyrsta Hugarflugið var haldið og er það orðinn fastur liður sem hefur notið mikilla vinsælda bæði hjá áhorfendum sem og félagsmönnum sem fá nokkuð frjálsar hendur til að vinna að sínum óskaverkefnum. Hvetjum við alla til að koma og sjá afrasktur þeirrar frábæru vinnu sem þetta grasrótarstarf skilar.
Undirbúningur fyrir stóru leiksýningu vetrarins er að fara af stað. Rúnar Guðbrandsson leikstjóri mun helgina 3. – 4. desember halda svokallað samlestrarworkshop í leikhúsinu þar sem hann mun vinna með þeim sem gefa kost á sér að leika í uppsetningunni. Eftir workshophelgina mun leikstjórinn og stjórn ákveða í sameiningu hvaða verk verður fyrir valinu og í framhaldi af því mun leikstjórinn velja fólk í hlutverk. Þeim sem hafa áhuga á að vera með er bent á að mæta þessa helgi.
Að lokum er svo stefnt á að halda jólakvöld stuttu fyrir jól en það er gömul hefð sem leikfélagið endurvakti fyrir tveimur árum og hefur gefist vel í aðdraganda jólanna. Þá setur leikhúsið sig í heimilislegar stellingar með gleði og jólaanda í fyrirrúmi, lesnir eru húslestrar úr bókum, sungin jólalög og stundum koma óvæntir gestir.
Það mun því verða líf og fjör í öllum hornum leikhússins næstu vikur. Við hvetjum alla til að fylgjast með starfi leikfélagsins en hægt er að skrá sig á síðu okkar á fésbókinni og/eða skrá sig á póstlistann okkar leikfelagselfoss@gmail.com en þar er hægt að spyrja nánar út í alla þá viðburði sem framundan eru.
Stjórn Leikfélags Selfoss