Leikfélag Selfoss vinnur nú hörðum höndum að 88. uppsetningu félagsins. Æfingar hófust í desember sl. og stefnt er á frumsýningu þann 14. febrúar. Rakel Ýr Stefánsdóttir leikstýrir verkinu sem heitir Átta konur og er „glæpsamlegur gamanleikur“ eftir franska leikskáldið Robert Thomas. Þýðing og aðlögun var í höndum Sævars Sigurgeirssonar.
Við kynnumst glæsilegri eiginkonu, tveimur ungum og uppreisnargjörnum dætrum hennar, örvæntingarfullri mágkonu, gráðugri tengdamóður, ráðsettri ráðskonu með duldar hliðar og þjónustustúlku með ómótstæðilegan sjarma. Húsbúndinn virðist sofandi í rúmi sínu, en er það svo?
Þegar sjö óstýrilátar konur koma saman og sú áttunda bætist við, getur allt gerst.
„Það hefur verið ansi líflegt hjá okkur í leikhúsinu síðustu daga, mikil leikgleði, söngur og dans! Ég er gífurlega þakklát fyrir þann frábæran leikhóp sem ég fæ að vinna með og ekki síst fyrir allt hæfileikaríka fólkið sem vinnur á bakvið tjöldin. Hér rennur saman mismunandi reynsla og þekking fólks, meira að segja frá mismunandi landshlutum og öll vinna saman,“ segir Rakel Ýr Stefánsdóttir leikstjóri.
Leikverkið gerist í sumarbústað á Þingvöllum árið 1963. Átta leikkonur draga áhorfendur inn í litríkan kvennaheim, þar sem óvæntir atburðir, spennandi uppákomur og fjörug kímni fara hönd í hönd. Áhorfendur geta átt von á óvæntum dans- og söngatriðum þegar leikkonurnar fara á flug.
Átta óstýrilátar konur og einn húsbóndi tryggja sannkallaðar hamfarir á fjölum leikhússins með hækkandi sól. Þessi glæpsamlegi gamanleikur, kryddaður söng og dansi, gefur loforð um ógleymanlega kvöldstund hjá Leikfélagi Selfoss.
Leikverkið Átta konur var frumflutt í París árið 1961 og hlaut það leiklistarverðlaun Prix du Quai des Orfèvres og naut mikilla vinsælda á sínum tíma. Franski leikstjórinn François Ozon vann kvikmynd upp úr verkinu árið 2002, þar sem margar af fremstu leikkonum Frakklands fóru á kostum og naut hún ekki síðri vinsælda en leikverkið sjálft.