Fimmtudaginn 16. mars næstkomandi verða haldnir tónleikarnir Raddir úr Rangárþingi á Stracta hótel á Hellu. Fram koma fjölmargir söngvarar og söngkonur sem eiga það sameiginlegt að vera öll úr Rangárþingi.
„Mig hefur lengi langað til að halda svona tónleika á svæðinu. Ég er heppin að fá að spila með fullt af flottum röddum úr Rangárþingi, bæði sem meðleikari í tónlistarskólanum og einnig á alls konar viðburðum. Þannig að mig langaði einfaldlega að skapa vettvang fyrir þessar raddir hér á Hellu með svipaðri tónleikastemningu og til dæmis er á Sviðinu á Selfossi eða Græna hattinum á Akureyri,“ segir Glódís Margrét Guðmundsdóttir, ein af skipuleggjendum tónleikana, í samtali við sunnlenska.is.
Skemmtileg nánd og einstök stemning
Glódís segir að Stracta sé frábær staður til að halda tónleika sem þessa. „Okkur hefur fundist vanta svona viðburði hér á svæðinu svo við erum mjög þakklát fyrir salinn á Stracta. Við eigum frábæran menningarsal hér á Hellu sem virkar mjög vel fyrir margs konar tónleika en við erum að fara í aðeins aðra átt með Röddum úr Rangárþingi. Tónleikagestir sitja við borð, barinn er opinn og hægt er að panta mat af bistroinu hjá Stracta fyrir tónleika.“
„Eftir tónleikana er fólk síðan ekkert að flýta sér heim og Kristinn Ingi, trúbador okkar Hellubúa, hefur tekið að sér að vera ballhljómsveit fyrir dansþyrsta tónleikagesti eftir tónleikana. Flestir sem eru að mæta á tónleikana þekkja einhvern sem er að koma fram og það skapar skemmtilega nánd við flytjendur og alveg einstaka stemningu. Svo skemma náttúrulega ekki fyrir frábær tilboð á barnum.“
Vissu strax að það yrðu fleiri tónleikar
Þetta er í þriðja sinn sem tónleikarnir Raddir úr Rangárþingi eru haldnir. „Fyrstu tónleikarnir fóru fram í ágúst 2022 í tengslum við Töðugjöldin og mæting og stemning fór fram úr okkar björtustu vonum. Brjálæðislegt þakklæti, bæði tónleikagesta og flytjenda er það sem kemur upp í hugann. Fólk var auðvitað líka búið að vera þyrst í svona eftir covid en við vissum strax að við vildum halda fleiri svona tónleika því stemningin var bara ólýsanleg!“
Í desember síðastliðnum héldu Raddir úr Rangárþingi svo jólatónleika sem þóttu heppnast ákaflega vel.
Úr nógu að velja
Allir sem koma fram á tónleikunum eiga það sameiginlegt að búa eða hafa búið í Rangárþingi ytra. „Á hverjum tónleikum koma fram ellefu til sextán söngvarar og í þetta skipti verða þetta tólf söngvarar: Dana Ýr Antonsdóttir, Jóhanna Þorbjörg Magnúsdóttir, Ína Karen Markúsdóttir, Írena Víglundsdóttir, Alba Cayuelas Orts, Bjarnveig Björk Birkisdóttir, Bergrún Anna Birkisdóttir, Árný Gestsdóttir, Aron Birkir Guðmundsson, Hróbjartur Heiðar Ómarsson, Rökkvi Hljómur Kristjánsson og Kristinn Ingi Austmar. Síðan erum við með frábæra kynna úr heimabyggð líka en það eru þau Eydís Hrönn Tómasdóttir og Eiríkur Vilhelm Sigurðarson.“
„Eftir þessa tónleika munu þetta verða tuttugu og fimm raddir sem hafa sungið á þessum tónleikum. Alltaf bætast einhverjar nýjar í hópinn og planið er að halda aðra tónleika í ágúst 2023, sem eru að verða fullmannaðir af nýjum söngvurum sem ekki hafa komið fram áður. Sem segir okkur að söngmenning í Rangárþingi ytra er mikil og úr nógu að velja. Það er einmitt eitt af markmiðum tónleikanna líka, að vekja athygli heimamanna á því að það þarf ekki endilega að leita út fyrir bæjarmörkin til að fá skemmtikrafta eða söngatriði við hin ýmsu tilefni.“
Leynigestur á heimsmælikvarða
Hljómsveitina skipa í þetta skipti Kristinn Ingi á gítar og bassa, Dana Ýr Antonsdóttir á gítar, Glódís Margrét á píanó og Steinn Daði Gíslason á trommur. „Í lok tónleikana myndum við svo kór með öllum söngvurum í þremur lögum. Dagskráin er mjög fjölbreytt og söngvararnir hafa frelsi til að velja sér það sem hentar þeim best og sýnir þeirra bestu hliðar. Sem dæmi má nefna lög með Hauki Morthens, Dolly Parton, Amy Winehouse, Abba, Bubba, Ellý Vilhjálms og Tinu Turner. Síðan hefur nýtt efni frá söngvurum fengið að heyrast á fyrri tónleikum og verða þessir engin undantekning.“
„Á jólatónleikunum vorum við svo með leynigest og ætlum að hafa einn slíkan á þessum tónleikum líka sem er hljóðfæraleikari á heimsmælikvarða og spilar nokkur lög með hljómsveitinni!“ segir Glódís að lokum.
Hægt er að nálgast miða á tónleikana á tix.is.