Fimmtudaginn 5. desember verður haldin stór aðventuhátíð í Þingborg í Flóahreppi. Er þetta í annað sinn sem hátíðin er haldin.
Hátíðin er á vegum Menningarnefndar Flóahrepps og er hún haldin í samstarfi við Berglindi Björk Guðnadóttur, sópransöngkonu.
„Aðventuhátíð Flóahrepps var haldin í fyrsta skipið í fyrra við mjög góðar undirtektir, þar sem náðist að fylla félagsheimilið Þingborg. Gleðin skein úr andlitum áhorfenda sem og flytjenda,“ segir Sigrún Hrefna Arnardóttir, ein af skipuleggjendum hátíðarinnar, í samtali við sunnlenska.is.
Sigrún Hrefna segir að kakóbarinn hafi slegið rækilega í gegn í fyrra hjá börnum sem fullorðnum. „Í ár var farið í að stækka barinn töluvert til að veita sem besta þjónustu. Við höfum fengið til liðs við okkur kvenfélagskonur í sveitinni ásamt krökkunum í 10. bekk í Flóaskóla til að aðstoða á kakóbarnum. Viðtökurnar fórum fram úr öllum væntingum í fyrra og vonum við aðsóknin verði jafn góð þetta árið.“
„Miðasala er nú hafin á floahreppur.is og fer mjög vel af stað. Mikil spenna er fyrir kvöldinu er hjá söng- og tónlistarfólkinu okkar, sem hefur æft í allan vetur. Sveinn Orri Einarsson verður kynnir kvöldsins og stelpurnar úr Tónafljóð ætla að flytja okkur ævintýralega jólasyrpu með öllum vinsælustu jólalögunum. Hlökkum til að taka á móti ykkur og eiga hátíðlega kvöldstund saman.“
Þess má geta að aðventuhátíðin hlaut veglegan styrk úr Uppbyggingarsjóði Suðurlands þetta árið, sem Sigrún Hrefna segir að komi sér vel til að gera hátíðina enn veglegri.
Húsið er opnað klukkan 18:00 og hefst dagskrá klukkan 18:30. Miðaverð fyrir 17 ára og eldri er 2.500 kr. í forsölu en við inngang 3.500 kr. Ungmenni 13-17 ára greiða 1.000 kr. í forsölu en 1.500 kr. við inngang. Frítt er fyrir 12 ára og yngri.
Nánari dagskrá og upplýsingar á floahreppur.is, á Instagram og á Facebook síðu Flóahrepps.