„Mikill heiður og ánægjuleg viðurkenning“

Pétur Thomsen. Ljósmynd/Pétur Thomsen

Pétur Thomsen, ljósmyndari á Sólheimum í Grímsnesi, var útnefndur myndlistarmaður ársins 2025 þegar Íslensku myndlistarverðlaunin voru veitt í áttunda sinn í vikunni.

„Þetta er mikill heiður og mjög ánægjuleg viðurkenning á mínum störfum og þeim verkefnum sem ég hef verið að vinna að. Þetta er mér líka mikil hvatning til að halda áfram. Ég trúi því að myndlistin sé gott verkfæri til að hafa áhrif á umræðuna og til að fjalla um mikilvæg málefni eins og náttúruvernd sem hefur verið rauði þráðurinn í mínum verkum,“ segir Pétur í samtali við sunnlenska.is.

Frá sýningunni Landnám í Hafnarborg. Ljósmynd/Pétur Thomsen

Pétur hlaut verðlaunin fyrir sýninguna Landnám sem sett var upp í Hafnarborg, menningar- og listamiðstöð Hafnarfjarðar. Sýningin stóð frá 9. nóvember 2024 til 16. febrúar sl.

Samband mannfólks við náttúruna hefur verið megininntak í ljósmyndaverkum Péturs þar sem finna má vitnisburð um ágang mannsins á umhverfi sitt. Sýningin Landnám er langtíma-ljósmyndaverk þar sem Pétur tekur fyrir sambýli manns og náttúru frá sjónarhóli ójafnvægis og áverka á jörðinni eftir umgang og framkvæmdir. Í verkunum má sjá rask á náttúrunni, líkt og sár eða rof í jarðvegi og merki um skeytingarleysi í umgengni mannfólks, sem listamaðurinn staldrar við og varpar ljósi á.

Frá sýningunni Landnám í Hafnarborg. Ljósmynd/Pétur Thomsen

Mat dómnefndar er að Landnám sé einstaklega vel útfærð sýning, frá framkvæmd til framsetningar verkanna og að í henni megi skynja vitund um náttúruna og umhyggju fyrir henni. Með djúpri þekkingu á ljósmyndamiðlinum fangar Pétur Thomsen í verkum sínum inntak og hugmyndafræði sem á sýningunni umhverfist í samtal við áhorfandann á áhrifaríkan hátt.

Frá sýningunni Landnám í Hafnarborg. Ljósmynd/Pétur Thomsen

Pétur lauk MFA-prófi í ljósmyndun frá École nationale supérieure de la photographie í Arles, Frakklandi, árið 2004. Hann hefur hlotið verðlaun og viðurkenningar fyrir verk sín og verið áberandi þátttakandi í sýningarhaldi og fjölbreyttum verkefnum hér á landi og erlendis. Pétur býr og rekur vinnustofu sína að Sólheimum í Grímsnesi.

Myndlistarráð stendur að baki Íslensku myndlistarverðlaununanna, sem hafa það að meginmarkmiði að vekja athygli á því sem vel var gert á sviði myndlistar á liðnu ári.

Fyrri greinEndurkomusigur Stokkseyringa – Hamar steinlá
Næsta greinIcelandair semur við IDS á Selfossi um nýja innviði í upplýsingatækni