Á Degi barnsins, þann 29. maí síðastliðinn, fékk Listasafn Árnesinga sex milljón króna styrk frá Barnamenningarsjóði. Alls styrkti sjóðurinn 34 verkefni og fékk listasafnið hæsta styrk þessa árs fyrir verkefnið Smiðjuþræðir.
Verkefnið snýst um að færa safnið og listamenn sem vinna með safninu inn í skólastofur í Árnessýslu og segir Alda Rose, verkefnastjóri fræðslu hjá Listasafni Árnesinga, að styrkurinn geri safninu kleift að styrkja tengsl sín og samstarf við skólana í Árnessýslu.
„Við viljum veita börnum og unglingum tækifæri á að taka þátt í fjölbreyttum og færanlegum listasmiðjum þar sem er oft flókið fyrir skóla og börn í Árnessýslu að sækja listviðburði á Listasafninu vegna fjarlægðar við safnið,“ segir Alda í samtali við sunnlenska.is.
„Markmiðið okkar er að börn í Árnessýslu fái að taka þátt í fjölbreyttu menningarstarfi jafnt á við börn á höfuðborgarsvæðinu. Það er mikilvægt að efla barnamenningu á Suðurlandi og að allir upplifi að safnið sé þeim aðgengilegt hvort sem það kemur til okkar eða við til þeirra,” bætir Alda við.