Í janúar og febrúar mun söngvaskáldið Svavar Knútur halda ukulelenámskeið í Brimrót á Stokkseyri.
Um er að ræða síðustu tvo miðvikudagana í janúar og fyrsta miðvikudaginn í febrúar. Á námskeiðinu verður farið yfir grundvallaratriði ukuleleleiks og kennt grunngrip og spilatækni. Ennfremur læra nemendur nokkur lög til að flytja fyrir vini og vandamenn á lokatónleikum sem fara fram í Brimrót sunnudaginn 9. febrúar kl. 14:00.
Allir geta lært á ukulele
Aðspurður hvernig það hafi komið til að halda ukulelenámskeið á Stokkseyri segir Svavar að honum hafi einfaldlega fundist Brimrót bara svo frábært verkefni og hugmynd. „Sem staður fyrir samfélagið til að koma og gera eitthvað uppbyggilegt saman. Og það er nú ekki margt uppbyggilegra en að læra saman á hljóðfæri og að syngja skemmtileg lög saman. Svo eru þessar frábæru stelpur sem standa fyrir Brimrót náttúrulega algerlega í efstu sætunum hjá mér í lífinu og ég held rosalega með þeim,“ segir Svavar í samtali við sunnlenska.is.
Svavar segir að námskeiðið sé fyrir alla, ekki bara börn. „En börnum fylgir sá flotti bónus að það er ókeypis fyrir foreldra í fylgd með þeim. Í rauninni er það mér hið mesta metnaðarmál að sem flestir geti tjáð sig með tónlist og notið þess að spila einföld lög á hljóðfæri og syngja með.“
„Ég hef aldrei lent á nemanda sem gat ekki lært á hljóðfærið og kunni ekki nokkur lög í enda námskeiðs. Það er nefnilega það fallega, að ef við nálgumst tónlist eins og afreksíþróttir, þá eru bara ósköp fáir sem geta þetta, en það er sama með tónlistina og íþróttirnar að allir geta haft gaman að því að spila á hljóðfæri og syngja,“ segir Svavar.
Ekki dramahljóðfæri
„Ukulele er frábært hljóðfæri fyrir almenning af því það er einfalt og maður er fljótur að læra grundvallaratriðin, sem þýðir að langflestir geta sungið nokkur lög eftir einn eða tvo tíma í tilsögn. Það er svakalega hvetjandi til að fara síðan lengra með hljóðfærið.
Svo er ukulele náttúrulega í víðara samhengi svo ótrúlega hógvært og auðmjúkt hljóðfæri, melódískt og mjúkt og ekki mikil læti í því. Það passar mér ósköp vel og ég held meirihluta fólks. Þetta er ekki dramahljóðfæri,“ segir Svavar.
„Ef það heldur áfram að vera áhugi, þá er ég alltaf til í að koma aftur og leiðbeina fólki með tónlist og hver veit nema við höfum bara almenna tónlistarsmiðju fyrir almenning til að prófa alls konar hljóðfæri og leika sér. Aðalatriðið er að samfélagið okkar þarf að fara að koma meira saman og gera skemmtilega hluti en ekki húka inni og horfa á sjónvarpið,“ segir Svavar að lokum.