Leikfélag hefur verið endurvakið á Eyrarbakka en þar hefur slíkt félag ekki starfað síðan á sjötta áratug síðustu aldar. Að stofnun hins nýja Leikfélags Eyrarbakka standa nokkrir aðfluttir Eyrbekkingar, sem eru miklar áhugamanneskjur um Bakkann og mun fyrsta verk félagsins byggja á sögu Eyrarbakka.
„Eyrarbakki er lítill bær sem á ótrúlega langa og merka sögu, bæði hvað varðar atvinnu og menningu. Húsið og þeir erlendu straumar sem íslensku faktorshjónin báru með sér þegar þau fluttu hingað í fásinnið, höfðu mikil áhrif á líf fólksins hér á svæðinu, allt frá miðri nítjándu öld og vel fram eftir þeirri tuttugustu. Okkur langaði að hjálpa til við að halda þessari sögu þorpsins á lofti,“ segir Sella Pálsdóttir, formaður leikfélagsins, í samtali við sunnlenska.is.
Auk Sellu Pálsdóttur, leikskálds og rithöfundar, standa þær Hera Fjord, leikkona og leikskáld og Hulda Ólafsdóttir, kennari, leikskáld og leikstjóri að stofnun hins nýstofnaða leikfélags.
„Við erum allar aðfluttar og mjög hrifnar af Eyrarbakka; sögunni, náttúrunni og fólkinu. Við kynntumst gegnum leiklistina og urðum góðar vinkonur. Við töluðum oft um að það væri gaman að endurvekja Leikfélag Eyrarbakka og í ár drifum við svo í að láta drauminn rætast,“ segir Sella.
Ánægja og áhugi meðal heimamanna
Þær vinkonur stofnuðu félagið síðastliðið vor og héldu svo formlegan stofnfund í ágúst síðastliðnum. „Stofnfundurinn var vel sóttur og yfir tuttugu manns skráðu sig í félagið. Það hefur svo bæst í hópinn og í dag eru meðlimirnir orðnir 32. Stuttu eftir stofnfundinn héldum við aðalfund og þá var kosin stjórn. Auk Heru, Huldu og mín sitja Ása Björk Ólafsdóttir og Birkir Örvarsson í stjórninni.“
Hulda segir að á stofnfundinum hafi komið fram mikill áhugi hjá fólki. „Fólk var ánægt með að verið væri að endurvekja leikfélagið. Það mættu þó að okkar mati of fáir á leiklistarnámskeiðið sem við buðum uppá fyrr í haust. Vonandi var það vegna þess að fólk vissi ekki af því.“
„Við ætlum að að setja upp leikverk með tónlist, sem byggir á sögu Eyrarbakka. Bregða upp svipmyndum úr bæjarlífinu sem eiga sér sögulega stoð í raunveruleikanum án þess að vera beinlínis sagnfræði. Það eru Guðmundur Brynjólfsson, Hulda Ólafsdóttir og Sella Páls sem semja leikþættina. Frumsýning er áætluð í mars.“
Gefandi að koma leiksýningu á svið
Hulda segir að þau séu meðvituð um að það sé stutt að fara frá Eyrarbakka í stóru atvinnuleikhúsin í Reykjavík. „Það getur verið erfitt fyrir lítið áhugaleikfélag að vera í samkeppni við þau um áhorfendur. Það er ekki síst þess vegna sem við viljum leggja áherslu á efni sem snertir íbúana hér sérstaklega.“
„Það er ljóst að leiksýningar eru mikilvægur þáttur í að halda uppi menningu og lyfta hugum manna yfir það hversdagslega. En uppsetningin sjálf, samvinnan sem fer í að koma leiksýningu á svið er svo gefandi. Allt umstangið sem þarf til að sýningin gangi upp, er ekki minna mál en afurðin fullburða á sviðinu. Það er þroskandi ferli sem reynir á sköpunarkraft og mátt þeirra sem að sýningunni standa,“ segir Sella.
„Mig langar að nota tækifærið og hvetja alla sem eiga sér draum um að stíga á svið – hvort sem það er til að leika, spila á hljóðfæri syngja eða dansa – til að ögra sjálfum sér og mæta á kynningarfund á fyrsta leikverki leikfélagsins þann 14. nóvember kl. 20:00 á Stað. Ég er viss um að viðkomandi mun ekki iðrast þess,“ segir Sella að lokum.