„Miklu skemmtilegra þegar allir eru glaðir í kringum mann“

Magnús Kjartan Eyjólfsson. Ljósmynd/Hafsteinn S

Magnús Kjartan Eyjólfsson, söngvari Stuðlabandsins, svaraði nokkrum jólaspurningum fyrir sunnlenska.is.

Hvort ertu meiri skröggur eða jólaálfur? Ég er meiri jólaálfur. Almennt séð er ég frekar skapgóður einstaklingur svo skröggurinn er soldið langt frá mér. Það er einhvern veginn miklu skemmtilegra þegar allir eru glaðir í kringum mann.

Uppáhalds jólasveinn? Þeir jólasveinar sem taka nafn sitt frá einhverju matarkyns eru í miklu uppáhaldi. Ætli ég taki ekki Bjúgnakræki út fyrir sviga.

Uppáhalds jólalag? Jólahjól, stuð og stemning. Kemur mér alltaf í jólaskap.

Uppáhalds jólamynd? Úff… Ég á erfitt með að velja á milli Home Alone og Die Hard. Skemmtilega ólíkar myndir.

Uppáhalds jólaminning? Það eru jólin sem samsetta fjölskyldan mín átti saman sem heild í fyrsta skiptið. Það þurfti ekkert annað þá.

Magnús litli með frændum sínum á jólunum.

Uppáhalds jólaskraut? Mamma mín á útklipptar jólasveinamyndir úr plasti sem eru límdir með vatni á rúður. Mér fannst það alltaf skemmtilegast þegar ég var polli.

Minnistæðasta jólagjöfin? Það er þegar hún Sigríður mín gaf mér miða á tónleika með æskuhetjunum í Queen. Þá fékk ég tár í augun.

Hvað finnst þér ómissandi að gera fyrir hver jól? Taka til og kaupa jólagjafir.

Hvað er í jólamatinn? Léttreyktur lambahryggur. Ég hef aldrei fengið betri mat.

Ef þú ættir eina jólaósk? Friður á jörð. Það er vissulega langsótt að hún rætist en ég leyfi mér að halda í vonina.

Fyrri greinHarður árekstur við Kvísker
Næsta greinJólakorta-hraðlesturinn sló í gegn