Umslag plötunnar Milda hjartað með Jónasi Sig hlýtur verðlaunin fyrir umslag ársins á Íslensku tónlistarverðlaununum.
Jónatan Grétarsson tók ljósmynd af tónlistarmanninum sem prýðir umslagið en Ámundi Sigurðsson sá um hönnun.
Íslensku tónlistarverðlaunin verða afhent á miðvikudagskvöld en í Menningunni í Ríkissjónvarpinu í kvöld var tekið forskot á sæluna og tilkynnt hver hreppti hnossið í flokknum umslag ársins.
Jónas segir verðlaunin koma sér ánægjulega á óvart. Hann segir plötuna vera persónulega og því vildi hann að plötuumslagið endurspeglaði það.
„Ég hef sjálfur verið hrifinn af plötualbúmum þar sem tónlistarmaðurinn er sjálfur berskjaldaður, ekki í einhverri glansmynd heldur er bara þarna. Mér finnst það henta fyrir þessa tegund tónlistar, frá hjarta til hjarta. Ég vildi hafa þessa persónulegu tengingu, að hún myndi standa og falla með því að vera einlæg frásögn manns til fólks sem væri að hlusta á plötuna.“
Jónas tilnefndur í fjórum öðrum flokkum
Jónas Sig er tilnefndur í fjórum öðrum flokkum á Íslensku tónlistarverðlaununum, sem verða sýnd í beinni útsendingu á RÚV miðvikudaginn 13. mars. Þau hefjast á RÚV2 klukkan 18:30 en færast yfir á aðalrásina klukkan 19:55.