Mismunandi endurómun í listasafninu

Sigrún að setja saman eitt verka sinna. Ljósmynd/Aðsend

Í dag var sýningin Mismunandi endurómun opnuð í Listasafni Árnesinga, en það er sýning á verkum sex myndlistarmanna sem allir búa og starfa í Þýskalandi.

Selfyssingurinn Sigrún Ólafsdóttir er þar meðal kollega sem eru Hollendingurinn Elly Valk-Verheijen og Þjóðverjarnir Annette Wesseling, Ekkehard Neumann, Friedhelm Falke og Nikola Dimitrov.

Sýning með sama heiti, Different Echoes, hefur verið sett upp í söfnum og galleríum í nokkrum löndum Evrópu og nú er hún sett upp í Listasafni Árnesinga.

Lykilstefið í sýningunni er að ná fram gagnvirkum endurómi verkanna á milli og láta þau kallast á við ólíka sýningarstaði. Ekki er um eiginlega farandsýningu að ræða því verkin á hverja sýningu eru valin með tilliti til misstórra sýningarstaða og í samráði við sýningarstjóra þeirra.

Sýningarstjóri sýningarinnar í Listasafni Árnesinga er Inga Jónsdóttir.

Stærð og umfang verkanna er mjög mismunandi, efniviðurinn margvíslegur og viðfangsefnið ólíkt, en sýningin snýst um það að ná jafnvægi milli þessara andstæðna. Verk listamannanna sýna að myndlist er rannsóknarvinna sem byggist á forvitni, tilraunum, framkvæmd og endurtekningu. Fjölbreytileikinn felst í hugmyndalegri útfærslu verkanna sem eru unnin með blandaðri tækni, ýmist ný eða eldri verk, skúlptúrar, málverk, textíll og innsetningar af ýmsum toga.

Sýningin mun standa til og með 2. júní næstkomandi og er aðgangur ókeypis, eins og á aðrar sýningar safnsins, og allir velkomnir.

Listamannahópurinn á Mismunandi endurómun. Ljósmynd/Aðsend
Fyrri greinGul viðvörun í Breiðholtinu
Næsta greinÞórsarar eltu eins og skugginn