Vatnslitamálarinn og kennarinn Derek Karl Mundell er listamaður mánaðarins í apríl hjá Gallery Listaseli á Selfossi. Sýningin er opin til 29. apríl.
Þetta er níunda einkasýning Dereks hérlendis en hann hefur einnig tekið þátt í mörgum samsýningum. Hann á verk í einkasöfnum og á stöðum opnum almenningi á Íslandi, í Kanada, Suður Afríku, Svíþjóð, Noregi, Bandaríkjunum og Bretlandi.
Derek telur að það sé útbreiddur misskilningur að vatnslitir séu erfiður miðill að vinna með. Í hans huga felst listin í jafnvægi þess að stjórna vatninu og vinna með því. Af því leiðir svo að vatnslitir eru að nokkru leyti ófyrirsjáanlegir, myndirnar móta sig að nokkru leyti sjálfar og öðlast eigið líf í höndum málarans. Stöku sinnum tekst svo vel til að vatnið, litirnir og pappírinn blandast með þeim undrum sem aðeins vatnslitaverk geta kallað fram og þá getur listamaðurinn verið ánægður með verk sitt.