Í dag er afmælisdagur Sólheima í Grímsnesi en samfélagið þar er 84 ára gamalt. Menningarveisla Sólheima heldur áfram en í dag leikur hljómsveitin Mógil og hefjast tónleikarnir kl 14:00.
Í hljómsveitinni Mógil eru Heiða Árnadóttir, Kristín Þóra Haraldsdóttir, Hilmar Jensson, Eiríkur Orri Ólafsson og Joachim Badenhorst. Tónlistin, sem samin er af hljómsveitarmeðlimum, er blanda af djass-, klassík- og þjóðlagatónlist. Mógil býður þér í ævintýralegan, seyðandi og hlýjan tónlistarheim.
Kirkjudagur Sólheimakirkju verður sunnudaginn 6. júlí kl. 14:00. Sr. Birgir Thomsen þjónar fyrir altari. Ræðumaður dagsins er: Guðmundur Ármann Pétursson, framkvæmdastjóri. Organisti er Jón Bjarnason, einsöng syngur Þóra Gylfadóttir. Meðhjálpari er Erla Thomsen.
Á þriðjudaginn kl 17:00 mun Ágúst Friðmar Backmann ganga með gestum Sólheima um ræktunarsvæðið- og húsin til að kynna lífræna ræktun, moltugerð, ormaræktun, fiskeldi í gróðurhúsum o.fl. Hópurinn hittist við kaffihúsið á Sólheimum kl 17:00.
Kaffihúsið, verslunin og sýningarnar verða opnar alla daga frá kl 12:00 – 18:00.