Moskvít gefur ekkert eftir á Sviðinu

Hljómsveitin Moskvít. Ljósmynd/Aðsend

Sunnlenska hljómsveitin Moskvít mun trylla lýðinn á Sviðinu í miðbæ Selfoss á föstudaginn, þann 5. maí næstkomandi.

„Þetta eru fyrstu tónleikarnir sem við höldum sjálfir á Selfossi. Að segja að við séum spenntir er undirlýsing, við erum með tvo nýja gítarleikara í rassvasanum sem við erum eiturspenntir að fá að kynna fyrir ykkur,“ segir Sjonni Arndal, söngvari hljómsveitarinnar í samtali við sunnlenska.is og lofar því að gestir muni upplifa kraftmikla tónleika.

„Við gefum hreinlega ekkert eftir þegar við spilum, hvort sem það er ballaða eða rokk, við gerum það og gerum það vel,“ segir Sjonni ennfremur.

Moskvit hefur gefið út eina plötu, Human Error, sem kom út árið 2021. Tónlist Moskvít mætti lýsa sem vestrænum blús, poppi og rokki. Þeir hafa einnig gefið út nokkur lög sem eru hluti af nýrri plötu, má þar nefna Superior Design, Perfect Little Wonder og það allra nýjasta Chance.

Hljómsveitina Moskvít skipa þeir Sigurjón Óli Arndal, söngur/bassi, Alexander Örn Ingason, trommur, Jón Aron Lundberg, píanó, Paolo Decena, gítar og Guðmundur Helgi Eyjólfsson, gítar.

Miðasala er í fullum gangi á tix.is og það er 18 ára aldurstakmark.

Fyrri greinGull, silfur og brons á Íslandsmóti í loftskammbyssu
Næsta greinÞorsteinn Aron snýr aftur