Páskasýning Byggðasafns Árnesinga í Húsinu á Eyrarbakka er tileinkuð hveitipokum og nýtingu þeirra.
Langt fram eftir 20. öld voru hreinsaðir hveitipokar nýttir í rúmföt, flíkur, dúka og margt annað. Þegar litríkar hippamussur komust í tísku á 7. og 8. áratugnum gripu handlagnar konur tækifærið og gerðu dásamlega fjölbreyttar mussur og kjóla úr hveitipokum.
Sýninguna prýða fjölmörg meistaraverk eftir systurnar Sigríði og Helgu Guðjónsdætur frá Litlu-Háeyri á Eyrarbakka ásamt verkum annarra kvenna. Í borðstofu Hússins gefst því tækifæri til að sjá brot af heimi þar sem engu var hent sem hægt var að nýta og sköpunargleðin fékk að njóta sín.
Í kvistherberginu á annarri hæð Hússins er sýningin Barnsins auga. Þar verða til sýnis teikningar barna af safngripum Byggðasafns Árnesinga. Nemendur úr Barnaskólanum á Eyrarbakka og Stokkseyri heimsóttu safnið í vetur og teiknuðu það sem fyrir augu bar og er útkoman afar skemmtileg.
Páskaopnun Byggðasafns Árnesinga í Húsinu á Eyrarbakka er kl. 14-17 frá 31. mars til annars páskadags. Verið velkomin.