Myndlistarnemar FSu halda áfram uppteknum hætti að setja upp sýningu í opinberu sýningarrými utan skólans. Nú eru það nemendur í framhaldsáfanganum Straumar og stefnur sem fá þjálfun í uppsetningu og kynningu á eigin verkum. Verkin voru unnin á haustönn 2022.
Sýningin fer fram í Listagjánni á Bókasafni Árborgar og stendur yfir dagana 2.-28. febrúar næstkomandi. Gestum gefst tækifæri á að upplifa fjölbreytt listaverk, bæði að útliti og innihaldi.
Í áfanganum Straumar og stefnur er unnið út frá kenningum í fagurfræði, fjölbreyttum myndgerðum og nemendur hlaða verk sín tilgangi sem tengjast ýmist goðsögnum eða Heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna.
Það er stefna myndlistarkennaranna í FSu að miðla verkum nemenda sem víðast og hægt er að kynnast náminu og því sem þar fer fram á Facebook.