Þriðjudaginn 9. janúar hefst viðburðaröð hjá Myndlistarfélagi Árnessýslu undir heitinu „Myndlist 40-4“. Heitið vísar í fjölda viðburða, en þeir verða hvorki fleiri né færri en 40 talsins og á fjögurra mánaða tímabili.
„Eldhugar í stjórn félagsins vildu leggja sitt af mörkum til að bæði efla félagsstarfið og jafnframt að virkja aðra í samfélaginu sem stunda eða hafa áhuga á myndlist. Við vitum af mjög mörgum einstaklingum sem stunda myndlist heima, sjálfum sér til yndis, en við viljum bjóða upp á aðstöðu þar sem fólk getur hist og haft félagsskap hvert af öðru um leið og það sinnir sinni listsköpun“ segir Katrín Ósk Þráinsdóttir, varaformaður Myndlistarfélags Árnessýslu, í samtali við sunnlenska.is.
Félagið hefur aðstöðu í Sandvíkursetri á Selfossi þar sem tvær skólastofur gegna hlutverki vinnurýmis, gangurinn þar á milli, Gallerí Gangur, er notaður til sýningarhalds og eins er búið að útbúa huggulega kaffiaðstöðu á stigapallinum. „Okkur fannst tilvalið að nýta þessa frábæru aðstöðu betur og gera það sem við gætum til að þeir sem vilja stunda myndsköpun í frábærum félagsskap fái tækifæri til þess,“ útskýrir Berglind Björgvinsdóttir formaður félagsins.
Myndlist 40-4 býður upp á meira en aðstöðu til myndsköpunar því samhliða verður boðið upp á örnámskeið í myndlist í hverjum mánuði, fimm myndlistarsýningar verða haldnar á tímabilinu og endað verður á opnu húsi á sumardaginn fyrsta. Það eru því ekki aðeins þeir sem stunda myndlist sem fá eitthvað fyrir sinn snúð heldur munu þeir sem njóta þess að horfa á fallega myndlist fá nóg tækifæri til þess næstu fjóra mánuði.
„Við viljum höfða til fólks víðsvegar á Suðurlandi og stefnum því á myndlistarsýningar vítt og breitt um svæðið og rúsínan í pylsuendanum verður svo vonandi sýning utandyra,“ segja þær stöllur, sem eru í forsvari fyrir myndlistarfélagið og verkefnið.