Myndlistarbraut Fjölbrautaskóla Suðurlands mun nú taka upp þá nýbreyttni að setja upp sýningu í opinberu sýningarrými utan skólans.
Nemendur í framhaldsáföngum fá þá þjálfun í uppsetningu og kynningu á eigin verkum.
Að þessu sinni eru það nemendur í módeláfanga á þriðja þrepi sem sýna í Listagjánni á Bókasafni Árborgar 10. – 30. janúar. Verkin eru unnin á haustönn 2019, þar sem fengist er við teikningu og túlkun mannslíkamans.
Unnið er út frá skissum af lifandi módeli sem taka frá tveimur mínútum upp í eina klukkustund. Um er að ræða vandaðar teikningar, krot og blindteikningar. Einnig er unnið undir áhrifum frá listasögunni, ýmsum tímabilum og landsvæðum og notaðar mismunandi aðferðir.
Fjölbreytt úrval áfanga á listnámsbrautinni
Það er margt á seiði í listnámsbraut FSu og áhugi nemenda mikill. Boðið er upp á fjölbreytt úrval áfanga sem opnir eru öllum nemendum burtséð frà því hvort þeir eru á brautinni eður ei.
Það er alltaf gefandi og gaman fyrir kennsluna að fá eldra fólk með áhuga á skapandi greinum inn í hinn hefðbundna nemendahóp.
Fablab festir sig í sessi
Stafræn smiðja, Fablab er að festa sig í sessi og á næstu önn verður boðið upp á 3. þreps àfanga þar. Kvikmyndun verður einnig hleypt af stokkunum. Fablab og kvikmyndun er partur af nýsköpun og miðlun en undir þann lið falla líka grafísk miðlun og grafísk hönnun. Leiklist er fastur liður svo og hefðbundnar greinar eins og textíll og myndlist en í öllum þeim greinum eru margir og fjölbreyttir áfangar.
Veggjalistin fékk leyfi Húsasmiðjunnar til að setja verkin sín upp á Blómavals skíðgarðinn síðast þegar sá áfangi var og nú á vordögum verður farið í að uppfæra ,,Bókavegginn” góða við FSu.
Fréttatilkynning