Út er komin ljóðabókin Niðurinn frá ánni, eftir Pétur Önund Andrésson, ljóðskáld og kennara á Selfossi.
Niðurinn frá ánni er áttunda bók Péturs Önundar. Hún skiptist í fimm kafla; Skáldin, Veðrabrigði, Keimur, Tregi þorpsins og Dreif.
Pétur Önundur er menntaður grunnskólakennari og skólasafnvörður og hefur haft lifibrauð sitt af þeim störfum. Ljóð hans hafa birst í safnritum og á sýningum. Þegar bókin Innlögn kom út sagði Pétur í samtali við Sunnlenska fréttablaðið að „ljóðlistin hafi verið hjákona hans frá unglingsaldri. Hún er kröfuharður og agandi förunautur en líka fullnægjandi og yndisleg.“
Kápumynd er eftir Elísabetu Helgu Harðardóttur á Selfossi og textar á kápu eru hönnun Ágústu Ragnarsdóttur í Þorlákshöfn en báðar eru þær myndlistarmenn og myndmenntakennarar við Fjölbrautaskóla Suðurlands.
Bókin fæst í Bókakaffinu, bæði á Selfossi og í Ármúlanum í Reykjavík og hjá höfundi. Prentun og umbrot var í höndum Prentsmiðjunnar Leturprents.