Um verslunarmanna-helgina verður haldin Njálsbrennuhátíð á Hvolsvelli með fjölbreyttri dagskrá fyrir alla fjölskylduna.
Hátíðin hefst á föstudagskvöld með tónleikum þjóðlagasveitarinnar Korku í Söguskálanum í Sögusetrinu.
Á laugardag verða barnaball, fornmannaíþróttir, leikir, þrautir og atgangur fyrir alla fjölskylduna. Meðal annars verður heimsmeistaramót í langstökki afturábak í öllum herklæðum. 40 erlendir sjálfboðaliðar taka þátt í hátíðinni.
Bardagaatriði verða sviðsett, hópatriði og einvígi og meðal annars verður Gunnar á Hlíðarenda veginn á laugardeginum. Á sunnudagskvöld verður sviðsetning á aðdraganda Njálsbrennu og brennunni sjálfri. „Bærinn að Bergþórshvoli árið 1011“ verður reistur hjá Sögusetrinu og að endingu brenndur til grunna.
Aðgangseyrir að tónleikum Korku er 1.000 krónur, frítt fyrir undir 16 ára en annars er frír aðgangur að öllum öðrum dagskrárliðum.