Fögnuður á Fardögum er myndlistar- og matarhátíð sem haldin verður núna laugardaginn 3. júni í Bragganum í Birtingaholti í Hrunamannahreppi og mun dagskráin byrja kl 14:00.
Er þetta í fimmta sinn sem þessi flökkuhátíð er haldin og hafa Góðgresi og Bragginn nú sameinað krafta sína og eru að vinna að ýmsum skemmtilegum verkefnum sem kynnt verða á hátíðinni.
Hátíðin er óður til fardagakálsins sem er betur þekkt sem njóli.
Myndlistarmönnum hefur verið boðið að koma og heiðra njólann á hátíðinni, á síðustu hátíðum hefur verið gerður njóla kjóll, njóla rapp verið flutt, njóla gjörningar. Nú verður spennandi að sjá hvað hátíðin ber í skauti sér þetta árið.
Góðgresi er nú í óðaönn að búa til kræsingar úr njólanum sem boðið verður upp á hátíðinni, má þar nefna njóla súpu, brauð og pesto. Ásamt því verður mikro kaffi brennslan Kvörn með pop up kaffi hús á staðnum með dýrindis kaffi þar verður hægt að forvitnast um hvað er nýtt er að gerast í kaffi heiminum.
Njólinn, eða fardagakálið, hefur fengið slæmt orð á sig í gegnum tíðina, helst vegna þrautseigju sinnar og dugnaðar. Fardagakálið var flutt inn á 18. öld og þótti hin mesta búbót fyrir Íslendinga sem margir hverjir þjáðust af skyrbjúg. Þar sem kálið er fljótsprottið og fullt af C vítamínum var það hinn mesti bjargvættur og dreifðu verkamenn jurtinni með sér þegar þeir fluttust á milli bæja á fardögum og fékk hún þaðan nafn sitt.