Ungmeyjakórinn Karítur Íslands undir stjórn Hilmars Arnar Agnarssonar hefur verið starfandi í rúmt ár. Kórinn er að mestu leiti skipaður ungum stúlkum úr Biskupstungum.
Allt frá stofnun kórsins hafa Karítur Íslands tekið sé fyrir hendur ýmis skemmtileg verkefni en kórinn söng m.a. á Myrkum Músíkdögum í vor ásamt því að halda tvenna svokallaða Föstudagslanga tónleika í Úthlíðakirkju og á Sólheimum í Grímsnesi.
Stærsta verkefni vorsins var aftur á móti þegar Karítur Íslands komu fram með Megas í tveimur mismunandi verkefnum. Annarsvegar á Barnamenningarhátíð með verkið Dyndilyndi sem Megas samdi í tilefni hátíðarinnar. Hinsvegar komu Karítur Íslands fram á tónleikunum Aðför að lögum í Háskólabíói en á þeim tónleikum leit Megas yfir farin veg og söng lögin sín ásamt mörgum góðum gestum. Tónleikarnir voru hluti af Listahátíð í Reykjavík.
Þann 9. október sungu Karítur Íslands í Viðey við tendrun friðarsúlu Yoko Ono. Kórinn fékk þau Svavar Knút Kristinsson tónlistarmann, Sophie Schoonjans hörpuleikara og
Hjörleif Valsson fiðluleikara til liðs við sig og saman fluttu þau m.a. lagið Across the Universe eftir John Lennon við sannkallaða friðarstemmingu. Einnig komu Karítur Íslands fram á tónlistarhátíðinni Iceland Airwaves þann 15. október með tónlistarmanninum Mugison.
Verkefnin sem framundan eru hjá Karítunum eru ýmis og má m.a. nefna að þær eru nú að undirbúa upptökur á Dyndilyndi verki Megasar ásamt fleiri lögum.
Karítur Íslands eru með breitt tónlistarúrval og syngja allt frá kirkjutónlist að popplögum og taka að sér að syngja við ýmis tækifæri til dæmis í veislum, afmælum, brúðkaupum ofl.
Hægt er að hafa samband við Karíturnar í gegnum netið á Facebook eða á kariturnar@gmail.com.