Sýningin Nútímakonur verður opnuð í Listasafni Árnesinga í Hveragerði, á morgun, laugardaginn 8. mars kl. 15.
Á alþjóðlegum baráttudegi kvenna verður opnuð ný sýning í Listasafni Árnesinga en uppspretta hennar eru þrjú verk úr gjöf Bjarnveigar Bjarnadóttur og sona hennar til safnsins. Verkin eru eftir Björgu Þorsteinsdóttur, Ragnheiði Jónsdóttur og Þorbjörgu Höskuldsdóttur og voru unnin á áttunda áratugi síðustu aldar, þeim merka áratugi sem oft er skírskotað til sem „kvennaáratugarins“, en nýja kvennahreyfingin, sem nefnd hefur verið önnur bylgja femínisma, laust niður sem eldingu austan hafs og vestan og fór af stað á fullri ferð.
Heiti sýningarinnar „Nútímakonur„ vísar til þess að mótunarár listamannanna voru árin eftir heimsstyrjöldina síðari, þegar íslenskt þjóðfélag hafði tekið grundvallarbreytingum og breyttist hratt úr hefðbundnu norrænu bændasamfélagi í nútímavætt borgarsamfélag og við blasti ný heimsmynd. Árin eftir stríð urðu því uppgangstímar og alþjóðlegir straumar í bókmenntun, myndlist og fatatísku bárust hratt til landsins og settu sterkan svip á þjóðfélag og menningarlíf. Í þessari þróun öðluðust konur stöðugt aukið frelsi, pólitískt, menntunarlega, fjárhags- og kynferðislega.
Í sýningarstjórn Hrafnhildar Schram er áherslan lögð á þá og nú sýningu, þ.e.a.s. að sýna verk frá áttunda áratugnum en einkum verk sem þær hafa unnið að á síðustu árum og undirstrika þannig virkni kvennanna sem enn reka eigin vinnustofur.
Leiðir þeirra Bjargar, Ragnheiðar og Þorbjargar lágu fyrst saman í Myndlistaskóla Reykjavíkur og síðan þá hafa þær allar átt frækinn feril sem spannar sýningar og viðurkenningar hér á landi sem erlendis. Björg er fædd 1940 og hefur á ferli sínum málað, teiknað, unnið í grafík og gert collage-verk auk þess að hafa einnig kennt og starfað sem forstöðumaður Safns Ásgríms Jónssonar um tíma. Ragnheiður er fædd 1933 og varð þekkt fyrir ætingar þar sem reynsluheimur kvenna var viðfangsefnið og síðar stórar kolateikningar. Þorbjörg er fædd 1939 og sérkenni hennar í myndlistinni er að fella klassíska fjarvíddarteikningu inn í landslagsverk og vekja þannig athygli á viðvæmu samspili manns og náttúru.
Sýningin mun standa til 11. maí. Listasafn Árnesinga er opið fimmtudaga til sunnudaga kl. 12 – 18 og alla dagana í maí. Aðgangur ókeypis og allir velkomnir.