Ný sýning Hrafnhildar Ingu í Gallerí Fold

"Að austan", sýning Hrafnhildar Ingu Sigurðardóttur á nýjum málverkum verður opnuð í Gallerí Fold við Rauðarárstíg laugardaginn 3. október næstkomandi kl. 15.

„Ég mála það sem ég sé og hef séð og geymi innra með mér, hugarfar og tilfinningu. Málverkin mín eru bein túlkun á því sem ég kem ekki frá mér á annan hátt. Sumir skrifa, semja eða bara tala við náungann eða sjálfan sig. Mér hentar betur að mála“ segir Hrafnhildur um sýninguna og bætir við: „Oft er það sem ég mála leikur með ljós og skugga en best finnst mér takast til ef ég finn aflið brjótast fram, það er þá sem ég held að það sem ég vil segja streymi fram.“

Sýningunni lýkur 18. október.

Hrafnhildur Inga Sigurðardóttir stundaði myndlistarnám við Myndlistarskóla Reykjavíkur 1978 og 1979, Myndlista og handíðaskóla Íslands nú Listaháskóla Íslands 1980-1984 og lauk þaðan námi í grafískri hönnun. Árin 1999 og 2000 bætti hún við sig námi í olíumálun í Myndlistarskóla Kópavogs.

Hrafnhildur Inga hefur haldið fjölda einkasýninga og tekið þátt í fjölmörgum samsýningum bæði hér heima og erlendis, meðal annars í Galeriazero Barcelona 2005 og 2006, Gullkistunni Laugavatni 2005, Fjallinu Snæfelli Skriðuklaustri 2005, More North NYC 2008, Art Vilnius Art Fair 2009, Spori þúsunda kvenna Garðabæ 2009, Art Copenhagen 2013 og 2014, Factory Art NYC 2015 og Nýmálað 2 á Kjarvalsstöðum 2015.

Verk hennar eru í eigu einkasafnara hér á landi og erlendis og í opinberum stofnunum víðsvegar um land.

Fyrri greinÚrslitakeppnin færð á Selfoss
Næsta greinForsala á Hátíð í bæ hefst 9. október