Lúðrasveit Þorlákshafnar ætlar að blása til nýárstónleika í Ráðhúsi Þorlákshafnar laugardaginn 9. janúar kl. 17:00. Þetta er í fjórða sinn sem sveitin heldur slíka tónleika og má því segja að þetta sé orðið að hefð hjá Lúðrasveit Þorlákshafnar.
Á tónleikunum verður fjölbreytt tónlist, allt frá klassískum Vínartónum yfir í eðal poppsyrpur og íslenska slagara sem allir ættu að kannast við. Söng- og leikkonan Anna Margrét Káradóttir ætlar að syngja undurfagurt eins og henni einni er lagið og svo verða óvænt atriði!
Miðaverð 2500 kr. og fer miðasala fram á Kompunni, hársnyrtistofu.
Þetta er ekki búið!
Þar sem Lúðrasveit Þorlákshafnar er einstaklega partýglöð og félagslynd lúðrasveit bjóða þau í lúðrapartý á miðnætti þar sem skemmtikraftar verða ekki af verri endanum: Sjarmatrölið Halldór Gunnar Pálsson Fjallabræðrastjórnandi og stórsöngvarinn Sverrir Bergmann, sem er eflaust tilbúinn að skera úr sér hjartað með skeið þetta kvöld, já eða allavega syngja það fyrir okkur. Garanteruð gæsahúðarveisla þetta kvöld þar sem við tengjum huga, hjart’og sál, jú auðvitað þar sem hjartað slær.
Er hægt að byrja árið eitthvað betur?
Er ekki tilvalið að skella sér á tónleika, skreppa svo heim í millitíðinni til að næra sig og jafnvel vökva sig ef þannig ber undir, gíra sig upp í gill kvöldsins og rölta sér svo aftur í Ráðhúsið í tryllt lúðrapartý?
Húsið opnar kl. 23.00 og er miðaverðið 2000 kr.
Ef þú vilt slá til og vera með í öllu stuðinu þá getur þú fengið miða á tónleikana OG partýið á 4000 kr!