Næstkomandi sunnudagskvöld, þann 1. desember, mætir heimakonan Kristjana Stefáns á Selfoss með einvalalið jazz snillinga og heldur jólatónleika á Sviðinu.
Jólatónleikar með Kristjönu eru ómissandi á aðventunni fyrir marga Selfyssinga en hún hélt um árabil tónleika í heimabænum með kvartett sínum. En hverju mega gestir búast við á sunnudagskvöld?
„Við ætlum að flytja öll gömlu og góðu jazz-jólalögin en svo erum við líka með jólalög frá Bó Hall, Sniglabandinu og Helga Björns sem við erum búnar að setja í geggjaðan jazzbúning,“ segir Kristjana í samtali við sunnlenska.is. Einnig verður frumflutt glænýtt jólalag sem heitir Hæ jólasveinn og er eftir Rebekku Blöndal, Sigtrygg Baldursson og Kristjönu sjálfa.
Enginn eðlilegur floti af jazz-snillingum
Einvalalið tónlistarfólks kemur fram á þessu kvöldi og segir Kristjana að það hafi verið einstaklega gaman að koma þessu verkefni saman. Og hún er ekki eini heimamaðurinn í hópnum því Vignir Þór Stefánsson er tónlistarstjóri og Guðlaug Dröfn Ólafsdóttir ein af söngkonunum.
„Það er búið að vera svo gaman á æfingum og stemningin í hópnum er frábær. Enda er þetta enginn eðlilegur floti af jazz-snillingum. Vignir er tónlistarstjóri hópsins og við tvö erum auðvitað alin upp í jólajazzinum með gamla Selfoss-kvartettinum okkar, með Smára Kristjáns og Gunna Jóns. Aðrir spilarar eru Þorgrímur Jónsson sem spilar á kontrabassa og Magnús Trygvason Eliassen sem spilar á trommur.
Svo er það hver snilldar söngkonan af annarri; Guðlaug Dröfn, Silva Þórðar, Sigrún Erla Grétarsdóttir og Rebekka Blöndal auk mín,“ segir Kristjana en gaman er að geta þess að Rebekka var valin jazzsöngkona ársins 2023 og Kristjana síðan jazzsöngkona ársins 2024. Sérstakur gestur kvöldsins er síðan enginn annar en Bogomil Font, sem syngur og leikur á slagverk.
Tónleikarnir eru sem fyrr segir næstkomandi sunnudagskvöld, þann 1. desember og hefjast klukkan 20:00. Ennþá fást miðar á tix.is.