Nýjasta íslenska kvikmyndin gerist í Hveragerði

Mynd: Hin íslenska frásagnarakademí / Tender Lee

Kvikmyndin Þorpið í bakgarðinum verður frumsýnd í dag. Myndin fjallar um Brynju, sem lýkur vist á Heilsuhælinu í Hveragerði og ákveður að framlengja dvölina í bænum.

Hún flytur sig yfir á gistiheimilið Backyard Village, þar sem hún kynnist Mark, sem er breskur ferðamaður.

Laufey Elíasdóttir fer með hlutverk Brynju, Tim Plester leikur Mark og önnur hlutverk eru í höndum Söru Daggar Ásgeirsdóttur,  Eyglóar Hilmarsdóttur, Sóleyjar Elíasdóttur og Helga Svavars Helgasonar.

Það er Marteinn Þórsson, kvikmyndagerðarmaður í Hveragerði, sem leikstýrir myndinni en hann skrifaði handritið einnig ásamt Guðmundi Óskarssyni og þeir framleiða myndina í sameiningu.

Leikarar og aðstandendur myndarinnar dvöldust í tvær vikur í Hveragerði á meðan á tökum stóð í desember síðastliðnum. „Myndin er bókstaflega tekin hér í bakgarðinum, í Hveragerði og svo hérna aðeins fyrir utan bæinn, nálægt Kerinu, þegar Mark og Brynja fara í roadtrip,“ segir Marteinn í viðtali við Ríkisútvarpið.

Myndir er sýnd í Smárabíó, Háskólabíó og Borgarbíó á Akureyri.

Fyrri greinReykir verði fremstir í flokki á alþjóðlegum mælikvarða
Næsta greinSelfyssingar langt frá sínu besta