Nýjungar í Álfa- og tröllasafninu

Gestir sem koma í Álfa- og tröllasafnið á Stokkseyri fá nú afhentan búnað sem á eru upptökur með leiðsögn um safnið.

Leiðsögnina verður hægt að fá á þremur tungumálum; íslensku, þýsku og ensku. Inn í leiðsögnina er fléttað sögum af álfum og tröllum auk fræðandi efnis um norðurljósin, allt í þeim tilgangi að gera upplifunina í sýningunni lengri og áhrifameiri.

Sigurgeir Hilmar Friðþjófsson, leikari, hefur unnið textann sem gestirnir hlýða á. Les hann sjálfur textann á íslensku og ensku, ásamt Guðfinnu Gunnarsdóttur, en það er Arthúr Björgvin Bollason sem les þýsku útgáfuna.

Sigurgeir Hilmar segir sögurnar yfirleitt vera í léttari kantinum, ekki megi hafa þær of þungar eða of langar. „Þetta er ekki hávísindaleg frásögn,“ segir hann.

Þessu til viðbótar hefur verið bætt við nýjum munum í sýninguna, til að auka fjölbreytnina frekar, svo fólk njóti þess að sækja þetta frábæra safn heim aftur og aftur. Sigurgeir Hilmar segir gesti hafa verið mjög ánægða með þessar breytingar. „Fólki hefur litist vel á þetta.“

Fyrri greinFæra námið nær nemendum
Næsta greinVeiðivötn yfir 20.000 fiska múrinn