Nýr karlakór í Hveragerði

Nýr karlakór mun hefja göngu sína í haust í blómabænum Hveragerði og þykir það eiga einkar vel við á 70 ára afmæli bæjarins og fullkomið tilefni til að bresta í söng.

Kórinn stefnir að því fyrst og fremst að hafa léttleika að leiðarljósi og munu efnistök og framkoma öll taka mið af því. Kórinn mun syngja hefðbundin karlakórslög í bland við aðra tegund tónlistar í skemmtilegum útsetningum er þykja henta hverju sinni.

Engin stíf inntökupróf verða né inntökuskilyrði en gott er að hafa meðferðis góða skapið, eins er ágætt að vera nokkuð lagviss og taka því almennt vel að syngja í boðaðri tóntegund og helst ekki syngja fleira en eitt lag í einu.

Fyrsta æfing er fyrirhuguð þann 5. október 2016 og verður nánar kynnt þegar nær dregur.

Söngstjóri hins nýja kórs verður síkátur Örlygur Atli Guðmundsson en hann býr einmitt í Hveragerði. Örlygur hefur stjórnað Karlakór Kjalnesinga undafarin 5 ár við góðan orðstír en lætur af störfum þar í haust. Einnig stjórnar hann Hverafuglum sem er kór eldri borgara í Hveragerði og Kór FSu, Fjölbrautaskóla Suðurlands Selfossi.

Fyrri greinGöngufólk í hrakningum á Laugaveginum
Næsta greinLést í umferðarslysi í Mýrdalnum