Eitraða barnið heitir nýjasta bók Guðmundar S. Brynjólfssonar, rithöfundar á Eyrarbakka. Þetta er sakamálasaga, sem gerist á Eyrarbakka, en það er bókaútgáfan Sæmundur sem gefur bókina út.
Af þessu tilefni verður útgáfuhóf í Húsinu á Eyrarbakka laugardaginn 15. september klukkan 16. Kaffi og konfekt, allir velkomnir meðan húsrúm leyfir.
Sumarið 1899 er framinn skelfilegur glæpur á Eyrarbakka – eða eru þeir tveir? Eða jafnvel fleiri? Á sama tíma drabbar Eyjólfur Jónsson stud. juris úti í Kaupmannahöfn. Hann er í þann veginn að ljúka lagaprófi – og kominn tími til, að meðtöldum vikum og mánuðum við dufl og dans hefur það tekið hann heil tíu ár.
Á vormánuðum árið 1900 losnar Árnessýsla nokkuð óvænt og aðeins nokkrum dögum síðar er búið að skipa Eyjólf í embættið. Þá upphefst æsileg atburðarrás þar sem nafntogað fólk þessara tíma kemur við sögu. Eyjólfur hringsnýst með í þessu ati, meira af vilja en mætti, og megnar alls ekki að vinna þau störf með sóma sem vænst er af ungum og glæsilegum sýslumanni. Hann finnur sig vankunnandi, er óöruggur og breyskur, fátandi um í rannsókn á óhugnanlegu nauðgunarmáli sem tekur á sig ólíklegustu myndir.
Ofan á glæpina og eigið líf þarf sýslumaðurinn að kljást við siðspillta sýsluskrifarann, Kár Ketilsson, og myndi sjálfsagt ekki sjá útúr öllum sínum flóknu verkum ef ekki kæmi til mannkostakonan Anna Bjarnadóttir, sýslumannsfrúin sem Eyrbekkingar elska og dá. Ef Önnu hefði ekki notið við væru málin sem þarna er fjallað um sjálfsagt óupplýst enn þann dag í dag.
Fjölskylda Nielsens faktors á Eyrarbakka þvælist inn í málið og við fylgjumst með skáldinu og lögmanninum Einari Benediktssyni verja unglingsstúlku sem sökuð er um hræðilegan verknað. Síra Eggert Sigfússon í Vogsósum kemur og við þessa sögu og sömuleiðis Jóhann Sigurjónsson skáld. Í skáldsögunni Eitraða barnið fléttast þannig saman raunverulegar og tilbúnar persónur en sagan markar upphaf þríleiks um sýslumannshjónin Eyjólf og Önnu.
Eitraða barnið er sjötta bók höfundar sem skrifað hefur fyrir bæði börn og fullorðna, samið leikrit og er pistlahöfundur á baksíðu Fréttablaðsins.