Allt frá árinu 2005 hafa Listahátíð í Reykjavík, Byggðastofnun og Icelandair (áður Flugfélag Íslands) staðið saman að Eyrarrósinni; viðurkenningu sem veitt er framúrskarandi menningarverkefni utan höfuðborgarsvæðisins.
Fyrirkomulag viðurkenningarinnar hefur verið með svipuðu sniði allt frá upphafi, en við endurnýjun samstarfssamnings í ár var ákveðið að endurskoða skipulagið með það í huga að styrkja Eyrarrósina enn frekar sem raunverulegan bakhjarl lista- og menningarlífs utan höfuðborgarsvæðisins. Samráð var haft við menningarfulltrúa á landsbyggðinni í því ferli.
Helstu breytingar á fyrirkomulagi verðlaunanna eru eftirfarandi:
• Eyrarrósin verður hér eftir veitt annað hvert ár í stað hvers árs.
Með því að veita viðurkenninguna annað hvert ár skapast svigrúm til þess að gera hverjum verðlaunahafa mun hærra undir höfði en verið hefur. Viðurkenningin er sem fyrr veitt verkefni sem hefur fest sig rækilega í sessi, er vel rekið, með skýra framtíðarsýn og sem hefur sannarlega listrænt gildi og slagkraft út í samfélagið.
• Eyrarrósarhafa verður boðið að standa að veglegum viðburði á Listahátíð 2022
Boðinu fylgir fjárhagslegur stuðningur til framleiðslu viðburðarins og framkvæmdar. Viðburðurinn verður hluti af aðaldagskrá Listahátíðar í Reykjavík og kynntur sem slíkur.
• Vandað stutt heimildamyndband verður framleitt um Eyrarrósarhafann.
• Verðlaunafé til Eyrarrósarhafa verður aukið úr 2 milljónum í 2,5 milljónir.
• Veitt verða þrenn 750 þúsund króna hvatningarverðlaun til nýrri verkefna.
Hvatningaverðlaunin eru veitt verkefnum sem eru yngri en þriggja ára en eru sannarlega nýbreytni og/eða viðbót við lista- og menningarlíf síns svæðis. Fyrir utan verðlaunaféð fá verkefnin 100 þúsund króna gjafabréf frá Icelandair.
Opið fyrir umsóknir
Opnað hefur verið fyrir umsóknir um Eyrarrósina 2021 og rennur umsóknarfrestur út 26. apríl næstkomandi. Nánari upplýsingar og hlekk á umsóknareyðublað má finna á www.listahatid.is/eyrarrosin.
Hefð er fyrir því að veita verðlaunin í heimabyggð síðasta Eyrarrósarhafa og þannig verður það áfram. Verðlaunaafhending fer nú fram í maí í stað febrúar áður. Þar sem heimildamyndahátíðin Skjaldborg hlaut viðurkenninguna síðast fer afhendingin fram á Patreksfirði í ár. Frú Eliza Reid, verndari Eyrarrósarinnar, afhendir verðlaunin.