Hljómsveitin Hr. Eydís ásamt Ernu Hrönn verður með heimsfrumflutning á nýju jólalagi í miðbæ Selfoss kl. 18:00 á morgun, fimmtudaginn 21. nóvember.
Þá verða jólaljósin á Selfossi tendruð og í kjölfarið verður nýjasti jólasmellur íslensku tónlistarsögunnar heimsfrumfluttur – Þegar eru að koma jól ! Sama dag verður lagið gefið út á Spotify. Samkvæmt heimildum sunnlenska.is hafa þeir sem hlýtt hafa á lagið gefið því gríðarlega góða umsögn og eru flestir sammála um að þarna sé á ferðinni jólasmellurinn í ár.
Dagskráin á Brúartorgi hefst kl. 17:30 með jólatónlist, kl. 17:45 flytur Barna- og unglingakór Selfosskirkju nokkur lög og kl. 17:55 ávarpar Bragi Bjarnason, bæjarstjóri, samkomuna og kveikt verður á jólatrénu á Brúartorgi.
Fram eftir kvöldi verður svo fjölbreytt dagskrá hjá verslunar- og þjónustuaðilum á Selfossi en opið er víða til kl. 21:00.