Það verður mikið um dýrðir í Þorlákshöfn um helgina þegar bæjar- og fjölskylduhátíðin Hamingjan við hafið nær hámarki.
Hamingjan við hafið hefur staðið yfir síðan síðasta þriðjudag en í kvöld verða ókeypis stórtónleikar í Skrúðgarðinum þar sem fram koma No Sleep, Daði Freyr, GDRN og Baggalútur ásamt leynigesti. Hápunkturinn helst langt fram á sunnudag þar sem dagskráin er í raun hlaðborð af spennandi viðburðum fyrir alla fjölskylduna.
„Það eru ótrúlegir hlutir að gerast í gömlu bræðslunni þar sem hverfin hafa verið að stilla upp sínum tjöldum og skreyta með ævintýralegum hætti. Þar ætla hverfin að taka á móti gestum í Hamingjunni við hafið á laugardagskvöldið og bjóða upp á partý snakk, lifandi tónlist og góða stemningu sem svo leiðir í bryggjusöng, brennu og flugeldasýningu,“ segir Ása Berglind Hjálmarsdóttir, framkvæmdastjóri hátíðarinnar.
„Í bræðslunni er einnig að taka á sig mynd svo kallað POP UP gallerí. Það eru sex listamenn með tengingu á Suðurlandið sem eru þar að koma sér fyrir með sína list sem verður bæði til sýnis og sölu. POP UP galleríið er talsvert ólíkt þessum hefðbundnu mörkuðum og hér á svo sannarlega við að sjón er sögu ríkari,“ bætir Ása Berglind við.
Það verður margt fleira í gangi í Þorlákshöfn um helgina; gestir geta prófað sjóbretti, farið á leikvöll með opnum efniðvið, sunnlenska götubitakeppnin verður haldin, sandkastalakeppni, dorgveiðikeppni, Leikhópurinn Lotta mætir á staðinn, Sirkus, fjölskyldubollywood, rib bátaferðir, draugasöguganga og miklu fleira.