Sönghópurinn Olga mun heimsækja Ísland í sumar og halda fimm tónleika víðsvegar um landið, meðal annars á Hvolsvelli þann 29. júní næstkomandi.
Olga er alþjóðlegur sönghópur sem hefur aðsetur í Hollandi og er skipaður fimm strákum, tveimur Íslendingum, tveimur Hollendingum og Rússa. Einn meðlima sönghópsins er Bjarni Guðmundsson frá Hellu.
Strákarnir stunda allir söngnám hjá íslenskum söngkennara, Jóni Þorsteinssyni, en Olga var stofnuð árið 2012 í Tónlistarháskólanum í Utrecht. Hópurinn syngur allt án undirleiks og efnisskráin spannar fimm aldir, allt frá endurreisninni til rakarkvartetta og frá þjóðlögum til sönglaga. Olga leggur upp með að færa tónlistina nær áheyrendum í leikrænni tjáningu og einlægum söng með vandaðri og metnaðarfullri tónlistarlegri túlkun.
Sumarið 2013 fór hópurinn hringinn í kringum Íslands og hélt tónleika á leið sinni um landið. Olga fór óhefðbundnar leiðir til þess að láta vita af sér og bauð meðal annars öllum Olgum á Íslandi frítt á tónleika sína. Eins og fram hefur komið þá mun Olga endurtaka leikinn í sumar en það gerist víst ekki að sjálfu sér.
Í lok mars hóf hópurinn söfnun í gegnum íslenska hópfjármögnunarsíðu sem kallast Karolinafund. Ef Olga nær að safna þeirri upphæð sem hún lagði upp með þá mun það gera henni kleift að taka með kvikmyndagerðarmann að nafni Felipe Pipi og mun hann klippa saman efnið í stutta heimildarmynd. Einnig mun það sem safnast nýtast almennt séð fyrir tónleikaferðalagið til Íslands sem og geisladisk sem hópurinn er að vinna að um þessar mundir.
Olga setti sér það að markmiði að safna 3.500 evrum á 40 dögum og hægt er að styrkja hópinn hér. Síðasti dagur söfnunarinnar er 6. maí.
Til gamans má geta þess að ef fólk leggur 25 evrur, um það bil 4.000 krónur, í verkefnið fær það miða á tónleika Olgu í sumar auk þess sem nafn þess birtist í efnisskrá fyrir tónleikana. Einnig er hægt að styrkja minna og jafnvel meira ef fólk hefur tök á því.
Hópurinn er búinn að nýta sér Facebook síðu sína til þess að birta myndir og myndbrot á hverjum degi af hópnum gera góðverk, syngja á tónleikum og einnig má þar sjá kynningarmyndbönd hópsins.