Myndlistarmaðurinn Ómar Smári Kristinsson er bæjarlistamaður Ísafjarðarbæjar 2019. Ómar Smári er Sunnlendingur í húð og hár, frá Gíslholti í Holtum en hefur búið á Ísafirði um árabil.
Útnefningin var tilkynnt á einleikjahátíðinni Act Alone á Suðureyri um síðustu helgi en Bæjarins besta á Ísafirði greinir frá þessu.
Í rökstuðningi Atvinnu- og menningarmálanefndar segir meðal annars að list Ómars hafi aðallega komið Ísfirðingum fyrir sjónir í teikningum og bókaútgáfu.
„Það sem einkennir list Ómars Smára er nákvæmni og hversu auðvelt er að átta sig á landslagi og afstöðu hluta í verkum hans. Hann er teiknari með sitt eigið handbragð, sinn eigin stíl. Hann er með húmor og er jafnan glaðbeittur,“ segir í rökstuðningnum. Ómar Smári stundaði nám í Myndlista- og handíðaskólanum og myndlistarnám í Hannover í Þýskalandi.
Sagnfræðileg myndasaga og kynjaverur jólanna
Árið 2012 teiknaði hann bæjarmynd af Ísafirði, í samstarfi við Eyþór Jóvinsson, þar sem hann tók bæði myndir úr lofti og nærmynd af hverju húsi. Hann setti saman kortið úr 24 teikningum, sem pössuðu síðan saman í eina heild. Kortið varð fljótlega úrelt eftir útgáfu en árlega uppfærir hann kortið með tilliti til nýs litar á húsi, viðbygginga eða annarra breytinga. Ætla má að kortið verði að nokkurs konar sagnfræðilegri myndasögu í gegnum tíðina. Kortunum hefur jafnframt fjölgað og Suðureyri, Þingeyri og Flateyri hafa jafnframt verið teiknuð upp ásamt fjölda annarra þéttbýlisstaða víðar um landið.
Ómar Smári kom að heimildarmyndinni Bolungarvík á 20 mínútum sem er eina teiknimyndin í heiminum sem sýnir þróun eins þéttbýlisstaðar. Hann hefur haldið ýmsar sýningar, tók m.a. þátt í tveimur jólasýningum í Safnahúsinu þar sem hann málaði jólasveina og aðrar kynjaverur jólanna á veggi Listasafns Ísafjarðar. Enn fremur er Ómar Smári að vinna að útgáfu teiknimyndasögu sem unnin er upp úr Gísla sögu Súrssonar ásamt Elfari Loga Hannessyni og var sýning á þeirri vinnu á vormánuðum í Listasafni Ísafjarðar.