Ómissandi að fara í jólabaðið í Laugaskarði

Jóhanna Ýr Jóhannsdóttir. Ljósmynd/Lágafellssókn

Jóhanna Ýr Jóhannsdóttir í Hveragerði svaraði nokkrum jólaspurningum fyrir sunnlenska.is.

Hvort ertu meiri skröggur eða jólaálfur? Ég er algjör jólaálfur, ég hef til dæmis alltaf haft gaman af því að skreyta fyrir jólin og gera huggulegt með kertaljósum og stílhreinu jólaskrauti. Ég á mjög góðar bernskuminningar um aðventuna frá æskuheimilinu. Mamma að baka spesíur, loftkökur og hálfmána. Við systkinin að skottast í kringum hana að hlusta á jólagesti Björgvins. Pabbi að draga fram jólatréð af háaloftinu og setja upp jólaseríuna á bílskúrinn.

Uppáhalds jólasveinn? Kertasníkir er í algjöru uppáhaldi hjá mér enda deili ég með honum þessu mikla dálæti á kertum. Ég læt hann þó um að smakka á þeim.

Uppáhalds jólalag? Það eru tvö lög sem eru í harðri samkeppni. Jólin eru okkar er í sérstöku uppáhaldi hjá mér núna. Lag sem Baggalútur flytur með Valdimari Guðmundssyni og Bríeti. Einstaklega fallegt lag og fallegur texti og hitt lagið er sungið af GDRN og heitir Myrra. Virkilega fallegt lag með fallegum texta. Jólalög eru mjög gagnleg ekki bara við jólakökubakstur heldur til dæmis í prófalestri. Þegar ég var í háskólanámi hér í denn notaði ég jólalög mikið í prófatörninni. Í pásunum sem voru nauðsynlegar í prófalestrinum hlakkaði ég til að hlusta á jólalögin. Ég átti disk frá Heru Björk sem heitir Ilmur af jólum, hann hlustaði ég mikið á.

Uppáhalds jólamynd? Í dag er það The Holiday en mér finnst alveg nauðsynlegt að horfa á hana um hver jól. Virkilega notaleg mynd, sæt og skemmtileg.

Uppáhalds jólaminning? Við Eyja Líf æskuvinkona mín bjuggum í sitthvorri götunni og vorum við nánast alltaf saman. Ég man eftir piparkökugerð heima hjá henni í Hjarðarholtinu en Vala mamma hennar bjó til deigið og það sem við gátum dundað okkur við þetta. Við áttum líka alveg eins jólalitabækur með myndum af sænskum jólasveinum og meðan við lituðum hlustuðum við á jólaplötu með Boney M.

Jóhanna litla á jólunum.

Uppáhalds jólaskraut? Ég hugsa að uppáhalds jólaskrautið mitt sé enn til á æskuheimilinu í Vallholtinu. Þetta var kaðall með jólasveinum sem mamma bjó til úr frauðkúlum, pípuhreinsurum og filtefni. Þetta skraut átti alveg sinn stað í holinu heima.

Minnistæðasta jólagjöfin? Dökkblár dúkkuvagn sem reyndist svo gallaður, ég var algjörlega miður mín yfir því. Fékk vínrauðan vagn í staðinn sem ég átti alla tíð erfitt með að taka í sátt. Held ég hafi hreinlega ekki jafnað mig á þessu fyrr en ég keypti notaðan bláan Simo vagn þegar yngsti sonurinn fæddist.

Hvað finnst þér ómissandi að gera fyrir hver jól? Það er orðin hefð fyrir því að fara í jólabaðið í Laugaskarði. Það er eitthvað svo mögnuð stemming að fara í sund á þessum degi, hitta fastagestina og kasta kveðju á fólk. Fyrir utan það að það er fínt að klára jólabaðið snemma. Mér finnst líka orðið tilheyra þessum degi að fara í helgistund í Kotstrandarkirkju. Þessi stund slær góðan takt inn í daginn og hátíðina. Þarna eru sungnir allir jólasálmarnir og skátarnir mæta með Betlehems kertið. Það er líka alveg ómissandi að hlusta á kirkjuklukkurnar slá inn jólin og hlusta á útvarpsmessuna í kjölfarið.

Hvað er í jólamatinn? Í ár er það hamborgarhryggur en synir mínir velja það. Ég myndi sjálf frekar velja kalkúnabringu og allt meðlætið. Ekki það að jólalyktin kemur með hamborgarhryggnum. Það liggur alveg ljóst fyrir.

Ef þú ættir eina jólaósk? Óskir mínar hafa nánast allar ræst og get ég hreinlega ekki beðið um meira en fyrirbrigði eins og stríð og ofbeldi eiga auðvitað ekki að líðast. Hugur minn er hjá þeim sem eru einir um jólin eða upplifa sig eina eða einmana, jólaóskin mín er til þeirra og að aðstæður þeirra breytist til batnaðar.

Fyrri greinBjörguðu hrossi úr skurði
Næsta greinGlæsileg tilþrif á jólamóti HSK