Ómissandi að fara í karaoke á gamlárs

Helgi Valur Ásgeirsson.

Helgi Valur Ásgeirsson, tónlistarmaður í Lundúnum, svaraði nokkrum áramótaspurningum fyrir sunnlenska.is.

Hvernig var árið 2024 hjá þér? Þetta var mjög gott ár eftir mörg erfið ár. Bæði persónulega og svo hjá Liverpool en kannski tengist það
Hvað stóð upp úr á árinu? Hápunktur ársins var sumarferð til Suðurlands. Fjölskyldan og ég gistum hjá mömmu í Hveragerði og nutum þess að ferðast um landið. Þetta var fyrsta sumar barnanna minna á Íslandi. Við heimsóttum bróðir minn og vorum viðstödd skírn, fórum Gullna hringinn og heimsóttum ættingja á Akranesi. Svo átti ég frábæra Liverpool ferð með frændum mínum á Cavern Club og Anfield.

Helgi ásamt börnum sínum, Kára og Adoru. Mynd/Úr einkasafni

Hvaða lag hlustaðir þú oftast á? Not Like Us með Kendrick Lamar náði rétt að ýta Hamilton söngleiknum úr fyrsta sæti. Wicked kom blessunarlega seint á árinu þannig ég losna við skömmina að segja að Popular með Ariana Grande sé númer eitt.
Hvað finnst þér ómissandi að gera alltaf á gamlársdag/kvöld? Flugeldar mega alveg missa sín en ég elska að horfa á fréttaannála og Áramótaskaup. Ekki er heldur leiðinlegt að kyssa fjölskyldumeðlimi og syngja „Gömul kynni gleymast ei“, „Auld Lang Syne“.
Hvað ætlarðu að gera um áramótin? Allt sem mér finnst ómissandi. Fjölskyldan fer í mat hjá tengdamömmu, vonandi verður sungið karaoke.
Hvað er í matinn á gamlárskvöld? Kjúklingur og hellingur af öðrum réttum. Hugsanlega einhverjir nígerískir réttir (Pepper soup, Jollof Rice, Plantain).
Strengir þú eitthvað áramótaheit? Nú neyðist ég til að hugsa um það. Hefði ekki gert það. Ég ætla að finna meiri tíma fyrir sjálfan mig, fleiri date nights með konunni og kaupa hús.
Hvernig leggst nýja árið í þig? Næsta ár verður gott.

Helgi og eiginkona hans, Adanna. Mynd/Úr einkasafni
Fyrri greinKúrekahatturinn fór niður í flugvélinni
Næsta greinGleðilegt nýtt ár!