Listamannabærinn Hveragerði er sýning sem hönnuð er af Guðrúnu Tryggvadóttur myndlistarmanni og formanni Listvinafélagsins í Hveragerði.
Föstudaginn 30. október kl. 17 verður opnuð sýning á tveimur sýningum Listvinafélagsins í Listasafni Árnesinga. Sýningunni Listamannabærinn Hveragerði – fyrstu árin en hún var fyrst sett upp í Verslunarmiðstöðinni Sunnumörk sumarið 2012 og var síðan dreift víðs vegar um bæinn vegna plássleysis í verslunarmiðstöðinni. Sýningin kynnir fyrstu ár þéttbýlismyndunar í Hveragerði með fókus á sex þjóðþekkta rithöfunda sem settust að í Hveragerði á þeim tíma en segja má að Hveragerði hafi verið fyrsti bærinn á Íslandi sem kalla mætti listamannabæ.
Á nýrri sýningu, útisýningu sem fyrirhugað er að standi í Lystigarðinum í Hveragerði munu fleiri listamenn bætast við auk þess sem lifandi galleríkjarni mun fjalla um fjölda listamanna allra listgreina sem tengst hafa Hveragerðisbæ með einum eða öðrum hætti í gegnum tíðina og þá sem enn eiga eftir að starfa eða búa í bænum í framtíðinni.
Einnig er vert að benda á vef félagsins sem hefur að geyma tímalínu um listamenn sem starfað hafa í Hveragerði. Vefurinn er hannaður af Páli Svanssyni sonarsyni Jóhannesar úr Kötlum. Þar er almenningi boðið að skrá upplifanir sínar eða minningar, sem tengjast verkum Hveragerðisskáldanna eða annarra listamanna í Hveragerði og segja frá einhverju sem snertir líf þeirra og list. En tilgangur félagsins er einmitt að eiga samtal við almenning og halda sögunni til haga á númtímalegan og lifandi hátt fyrir komandi kynslóðir.