Bókasafnið í Hveragerði og Listasafn Árnesinga bjóða til samveru í Listasafninu í kvöld þar sem fimm höfundar lesa úr bókum sínum og flutt verður tónlist.
Lesið verður úr eftirfarandi bókum: Birgir Andrésson – Í íslenskum litum eftir Þröst Helgason, Geislaþræðir eftir Sigríði Pétursdóttur, Ljóð af ættarmóti eftir Anton Helga Jónsson, Mörg eru ljónsins eyru eftir Þórunni Erlu-Valdimarsdóttur og Skáldsagan um Jón & hans rituðu bréf til barnshafandi konu sinnar þá hann dvaldi í helli yfir vetur & undirbjó komu hennar & nýrra tíma eftir Ófeig Sigurðsson.
Hljómsveitina Skuggabandið skipa tvennir feðgar, þeir Hörður Friðþjófsson og sonur hans Davíð og Páll Sveinsson og sonur hans Matthías Hlífar. Þeir leika nokkur Shadows-lög frá því um og eftir 1960.
Í safninu er sýningin Þjóðleg fagurfræði, þar sem verk tólf listamanna tvennra tíma eru til sýnis. Verkin endurspegla alþýðlegan menningararf þar sem gengið er út frá hefðinni ýmist á frjóan, hnyttinn og eða beittan hátt. Þar má m.a. sjá nokkur verk eftir fyrrnefndan Birgi Andrésson.
Sjá nánar á heimasíðunni www.listasafnarnesinga.is
Aðgangur er ókeypis og boðið verður upp á kaffi og piparkökur.