Strandakonan Jóna Ingibjörg Bjarnadóttir hefur í samstarfi við Jón heitinn Hjartarson rithöfund og skólastjóra fært í letur ættarsögu sína sem gerist að hluta til í Sænska húsinu á Selfossi. Á laugardag kl. 16-17 mun höfundurinn lesa upp úr bók sinni í Bókakaffinu á Selfossi, steinsnar frá æskuheimilinu.
Bókin sem kom út fyrr á árinu heitir Hlutskipti, saga þriggja kynslóða. Meðhöfundur að verkinu var Jón Hjartarson (1944-1923) fyrrverandi fræðslustjóri en hann lést þegar verkið var í lokaundirbúningi.
Foreldrar Jónu Ingibjargar voru Bjarni Kristinn Bjarnason og Ingibjörg Júlíana Guðlaugsdóttir sem eignuðust saman ellefu börn á fimmtán árum og bjuggu á neðri hæðinni í húsinu að Austurvegi 33, Sænska húsinu. Sagt er frá leiksvæðunum í þorpinu, Njólalandi þar sem nú er GK bakarí, ungri stúlku sem smyglar sér inn á dansæfingar Hennýjar Hermanns og finnur til fátæktarinnar þegar ekki er til peningur fyrir bíómiða.
Faðir sögumanns gengur undir nafninu Bjarni bensín, þar sem hann afgreiðir í bensínstöð Kaupfélagsins. Þrátt fyrir gott próf frá Samvinnuskólanum kemst hann ekki til mannvirðinga innan Samvinnuhreyfingarinnar. Árið 1968 veikist Bjarni alvarlega og er árlangt að heiman til lækninga. Þegar hann kemur aftur eru aðstæður í Sænska húsinu breyttar og eftir átök þar innandyra er faðir sögumanns leiddur út af heimilinu í lögreglufylgd og á þangað ekki afturkvæmt. Fjölskyldan leysist upp og húsmóðirin sest með ástmanni sínum að á Gjögri á Ströndum. Fjórum af börnunum er ráðstafað af Barnaverndarnefnd Selfosshrepps. Hjá sögumanninum Jónu Ingibjörg tekur við barátta við að komast úr fóstri fyrir sunnan norður til móður sinnar og systkina.
Fjölskyldusaga Jónu Ingibjargar er saga harðneskjulegri stéttaskiptingu, fátækt, óreiðu og harmi. En líka af hinum litlu og mikilvægu sigrum lífsbaráttunnar og væntumþykju innan brotinnar fjölskyldu.
Hér fyrir neðan birtist kafli úr bókinni Hlutskipti:
Óreiða og uppgjöf
Veikindi og áralöng spítalavist pabba skall á heimilinu 1968 eins og þruma úr heiðskíru lofti. Mamma stóð þá ein á vellinum, tekjulaus, með stóran barnahóp sem þurfti að sjá fyrir og hugsa um. Útlitið var ekki gott, uppgjöf og getuleysi hennar gagnvart aðstæðunum blasti við öllum. Kaupfélagið hljóp um stundarsakir undir bagga og lánaði okkur fyrir úttekt nauðsynja, en hún vissi að sú aðstoð var hvorki ókeypis né til langframa. Til að klóra í bakkann og komast innan um annað fólk, eins og hún orðaði það, réð hún sig alla virka daga í kvöldvinnu í Tryggvaskála á Selfossi, þar var etið, drukkið og dansað fram á nótt.
Um helgar fór mamma oft til Reykjavíkur, á Naustið, til að skemmta sér og skildi okkur krakkana ein eftir heima á Selfossi. Stundum vildi teygjast úr helgarferðunum fram á mánudag, en á meðan sáum við um heimilið undir stjórn elstu systkina minna. Við biðum heima, reyndum að halda heimilinu í horfinu, sem gekk misjafnlega, oftast var þó eitthvað til að borða, allavega gátum við bjargað því við. Við botnuðum ekkert í því hvernig mamma var orðin, við þekktum hana varla lengur fyrir sömu manneskju og áður. Okkur fannst hún afrækja okkur og hugsa aðeins um sjálfa sig.
Eitt kvöldið birtist Sveinn Hafnfjörð í Naustinu og fór ekki með veggjum. Hann var stór og mikill, málgefinn og aðgangsharður með skoðanir á öllum málum. Mamma dróst að Sveini, hreifst af sjálfsöryggi hans og djarflegri framgöngu eins og ekkert í lífinu skipti lengur máli nema hann einn og það sem hann hafði að bjóða.
Dag nokkurn bankaði hann upp á Austurvegi 33 á Selfossi, mamma fagnaði komu hans og hleypti honum inn. Alla leið inn í hjónaherbergi. Hann settist í húsbóndasætið og réð framvindu mála næstu misserin. Ári síðar voru mamma og Sveinn á förum frá Selfossi. Mikil ringulreið og spenna ríkti á heimilinu, bræður og systur mömmu komu í heimsókn og reyndu að fá hana ofan af þessari ákvörðun, en höfðu ekki erindi sem erfiði. Mamma vísaði þeim einfaldlega á dyr með þeim orðum að hún hefði ákveðið að fylgja Sveini og þeirri ákvörðun gætu þau ekki breytt.
Fólk frá barnaverndarnefnd Selfoss mætti á staðinn til að ráðstafa þeim börnum sem Sveinn kærði sig ekki um að hafa með. Hann valdi aðeins þrjú yngstu börnin úr hópnum, Önnu tíu ára, Höskuld átta ára og Bessa sex ára. Hvað yrði um okkur hin, væri úrlausnarefni barnaverndarnefndarinnar, hvorki hann né mamma myndu skipta sér af því.
Þessa setning heyrðist oft þetta vor: „Ég tek bara þrjú yngstu börnin Ingibjörg“.
Af okkur systkinunum sem komu í hlut barnaverndarnefndarinnar að ráðstafa var Atli Steinar yngstur, ellefu ára. Honum var komið í fóstur á Efri-Brú í Grímsnesi strax sumarið 1968. Þar var hann þegar mamma fór frá Selfossi, hún kvaddi hann ekki. Ég var á þrettánda ári og var send í fóstur til móðursystur minnar, Jóhönnu Guðlaugsdóttur og Þórketils Sigurðssonar. Þau hjónin áttu eina dóttur, Steinunni Margréti, sem var alltaf kölluð Gréta en við höfðum verið leikfélagar þegar hún og móðir hennar voru hjá okkur á Selfossi sumrin 1966 og 1967. Fjölskyldan bjó í Árbænum í Reykjavík þegar ég kom til þeirra. Helga María var 14 ára og fermdist þetta vor, hún varð eftir á Selfossi hjá hjónum sem hún var að passa fyrir. Ragnhildur, 15 ára, fór að Skálmholti í Flóa. Andrea Kristjana var 17 ára, hún varð eftir þegar mamma fór og bjó ein í vesturendanum á Austurvegi 33, frá því í maí þar til í september, en þá fór hún sem au pair til Englands. Bjarni Bernharður var 19 ára og Guðlaugur tæplega tvítugur, þeir voru báðir til sjós þegar heimilið var leyst upp.
Allt sem ákveðið var á Austurvegi 33 þessa daga var án nokkurs samráðs við föður minn eða okkur systkinin. Ég hef oft undrast hvers vegna barnaverndarnefndin hafði ekki samband við pabba eftir að hún tók að ráðskast með okkur og koma okkur fyrir hér og þar hjá vandalausum.
Þrátt fyrir að nú séu liðin meira en 50 ár frá því að þetta gerðist hugsa ég oft til þessara daga, vordaganna 1969 þegar heimilið okkar var leyst upp; eftirsjá eftir systkinum, heimili og vinum, svo ég tali nú ekki um höfnunina þegar mamma yfirgaf okkur. Þetta situr enn í mér. Fjölskyldan tvístraðist, með alvarlegum afleiðingum, sem hafa fylgt sumum okkar alla tíð.