Systurnar Sigga, Beta og Elín hafa hafa verið duglegar að svara kalli fólks um að koma og syngja Með hækkandi sól og hita þar með upp fyrir úrslitakvöld Söngvakeppni sjónvarpsins á laugardagskvöld.
„Þetta byrjaði á því að krakkarnir í Hjallastefnunni, sem ég kenni tónlist, komu mér á óvart með því að syngja lagið fyrir mig. Ég ákvað að fá stelpurnar í heimsókn til að hlusta á fallega flutninginn þeirra og syngja svo lagið með þeim,” segir Beta. „Þetta spurðist út og Barnaskór Ísaksskóla bauð okkur í heimsókn.“
Eftir að myndband frá Ísaksskólaheimsókninni fór í loftið hafa systurnar fengið boð um að mæta bæði í skóla og á vinnustaði og þegið þau með glöðu geði. Núna eru þær komnar á lokaæfingu í Söngvakeppnishöllinni í Gufunesi þar sem þær einbeita sér að því að syngja til sigurs í dómararennslinu í kvöld og í keppninni sjálfri á morgun.
Höfundur lagsins, tónlistarkonan Lay Low, er fulltrúi Sunnlendinga á úrslitakvöldinu, en hún er búsett í Ölfusinu.
„Ég er ótrúlega spennt fyrir úrslitunum. Sigga, Beta og Elín eru svo stórkostlegar samstarfskonur. Ég veit að þær eiga eftir að leggja allt í flutninginn og ég mun sitja í salnum að springa úr stolti,“ sagði Lay Low í stuttu spjalli við sunnlenska.is
Hér fyrir neðan er myndasaga af helstu ævintýrum systranna í vikunni.









