Öxin, Agnes og Friðrik á Suðurlandi

Magnús Ólafsson á Sveinsstöðum kynnir bók sína Öxin, Agnes og Friðrik – Síðasta aftakan á Íslandi. Aðdragandi og eftirmál í Risinu í Mjólkurbúi Flóamanna á Selfossi miðvikudaginn 6. nóvember kl. 20.00 og í Vínstofu Friðheima í Reykholti fimmtudaginn 7. nóvember kl. 20.00.

Sagan af Agnesi og Friðriki og morðinu á Natani Ketilssyni á Illugastöðum hefur lifað með þjóðinni í bráðum tvær aldir. Í bók sinni, Öxin, Agnes og Friðrik, fer sagnamaðurinn Magnús Ólafsson á Sveinsstöðum á kostum í magnaðri frásögn af þessum örlagaríku atburðum en þeir standa honum nær en mörgum öðrum. Þrístapar, þar sem aftakan fór fram, eru í landi Sveinsstaða.

Meira en 100 árum eftir aftökuna kom Agnes skilaboðum til afa Magnúsar, sem þá bjó á jörðinni, um það hvar bein þeirra Friðriks lægju og bað um að þau yrðu færð í vígða mold. Hann fann ásamt Ólafi, föður Magnúsar, líkamsleifarnar og grófu þeir þær upp – og töluðu aldrei um það síðan.

Magnús hefur kafað ofan í söguna af morðinu á Illugastöðum, ástæður voðaverksins og örlög helstu persóna og leikenda. Sýning hans í Landnámssetrinu, Öxin, Agnes og Friðrik, naut mikilla vinsælda og þá hefur hann í mörg ár farið með hópa, ýmist ríðandi eða gangandi, um sögusviðið og sagt þessa örlagaríku sögu.

Fyrri greinLítið gert úr áhyggjum íbúa Ölfuss og annarra landsmanna
Næsta greinSlæmi kaflinn gerði út um vonir Selfoss