Pabbi átti alltaf gott samband við Gáttaþef

Margrét Harpa Guðsteinsdóttir. Ljósmynd/Aðsend

Margrét Harpa Guðsteinsdóttir í Lambhaga á Rangárvöllum svaraði nokkrum jólaspurningum fyrir sunnlenska.is.

Hvort ertu meiri skröggur eða jólaálfur? Er mikill jólaálfur inn við beinið en skröggur lætur stundum á sér kræla ef álagið verður mikið.

Uppáhalds jólasveinn? Gáttaþefur – pabbi átti alltaf gott samband við hann og því er hann í uppáhaldi.

Uppáhalds jólalag? Jól eftir Báru Grímsdóttur.

Uppáhalds jólamynd? Á enga uppáhalds jólamynd þar sem ég horfi afar lítið á sjónvarp. Hins vegar eru margar bækur í uppáhaldi og fyrir jólin er ómissandi að lesa á Jólasveinana eftir Iðunni Steinsdóttur þegar jólasveinarnir fara að tínast til byggða.

Uppáhalds jólaminning? Lyktin af afa í Koti þegar hann kíkti inn í kaffi er hann var búinn að kveikja upp undir hangikjötinu í reykkofanum dagana fyrir jól.

Margrét litla glöð með jólagjöfina sína.

Uppáhalds jólaskraut? Jólabjallan sem hékk í svefnherbergishurðinni hjá mömmu og pabba, var þeim töfrum gædd að vera líka spiladós. Gaman að trekkja hana upp snemma morguns og láta „Heims um ból“ vekja mannskapinn.

Minnistæðasta jólagjöfin? Allt fallega föndurdótið frá krökkunum mínum, get ekki gert upp á milli.

Hvað finnst þér ómissandi að gera fyrir hver jól? Fara og höggva jólatré í Bolholtsskógi. Reyni svo að láta gott af mér leiða fyrir hver jól og gleðja vini og vandamenn með heimabökuðu kruðeríi.

Hvað er í jólamatinn? Hamborgarhryggur með brúnuðum bobblum og tilheyrandi. Í eftirrétt er svo alltaf grjónagrautur og leynist mandla í einni skálinni.

Ef þú ættir eina jólaósk? Að því gefnu að allt væri gott í heiminum þá er mín ósk að sem flest upplifi þakklæti og kærleika sem einkenna þennan árstíma.

Fyrri greinDagrenning kom böndum á hlöðuþak
Næsta greinSkógaskóli seldur