Sigurbjörg Eyjólfsdóttir, handverkskona í Selvogi, hefur sett upp skemmtilega sýningu í Gallerí undir stiganum í Þorlákshöfn sem ber yfirskriftina: „Það er hægt að mála á allt“.
Orðum sínum til stuðnings sýnir hún myndir sem hún hefur málað á rekavið, ryðgaðar skóflur, ónýta fötu o.fl. Myndefnið er sveitalífið á Íslandi áður fyrr, bátar, konur og karlar. Gjarnan eru þarna andlitsmyndir og eru fyrirmyndirnar margar hverjar þekkt andlit úr Ölfusinu en einnig andlit sem Sigurbjörg hefur séð í blöðum og tímaritum og hafa ekki horfið henni úr minni.
Sigurbjörg býr í Þorkelsgerði í Selvogi, á þar nokkrar hænur og ræktar jurtir sem hún notar til að búa til krem og krydd. Selvogurinn hefur löngum verið mjög afskekktur, þangað var ekki lagt rafmagn fyrr en árið 1970 og í dag er einungis föst búseta á þremur bæjum. Strandarkirkja og hið sérstaka andrúmsloft við kirkjuna dregur marga ferðamenn á svæðið og í mörg ár tók Sigurbjörg á móti gestum og sýndi þeim handverk. Í dag er hún mikið á faraldsfæti.
Sýning Sigurbjargar er skemmtilega uppsett, þar sem hún notar gamlar spítur til að búa til hillur og innan um ryðgaða gamla dótið standa nokkur kerti með teiknuðum blómum og gyllingu, en Sigurbjörg hefur lengi séð um að skreyta kerti sem notuð eru í Strandarkirkju.
Þegar sýningin var komin upp, dró Sigurbjörg fram pendúl sem hjálpar henni að verðleggja handverkið. Hún spyr pendúlinn hvað viðkomandi handverk eigi að kosta og hann gefur yfirleitt skýr svör. Reyndar kom upp smá vandamál varðandi tvö verk, en pendúllinn vildi ekki samþykkja neitt verð á þau og túlkar Sigurbjörg það þannig að hún eigi ekki að selja þau verk.
Sýningin stendur yfir út maí og hægt er að skoða hana á opnunartíma bókasafnsins.