Í kvöld, fimmtudagskvöld, verður haldið prjónakvöld á efri hæðinni á veitingastaðnum Miðbar á Selfossi.
Að prjónakvöldinu standa þær stöllur Steinunn Kristín Pétursdóttir og Guðný Traustadóttir en þær eru báðar uppaldar á Selfossi og eru nú fluttar aftur á heimaslóðirnar.
„Við Guðný erum báðar miklar prjónakonur. Við ákváðum síðsumars að stofna til samstarfs og höfum við staðið fyrir nokkrum prjónakvöldum í haust og vetur. Þau hafa verið afar vel sótt og það virðist vera sem það sé mikil eftirspurn eftir svona viðburðum hjá prjónakonum á öllum aldri um allt land,“ segir Steinunn Kristín í samtali við sunnlenska.is.

Steinunn Kristín, sem hannar uppskriftir undir nafninu Litli prins og Guðný sem er með netverslunina Garn og gjafir verða með kynningar á vörum og uppskriftum á prjónakvöldinu.
„Katla Marín mun einning mæta og kynna vönduðu macramé uppskriftirnar sínar sem hún hannar undir nafninu @heklamacrame og Gerður kynnir fallega íslenska hönnun sem hún framleiðir undir nafninu Gjóla design. Það verður jólaprjónakokteill og fleira og drykkir á tilboði. Salurinn verður lokaður og aðgangur ókeypis. Öll velkomin á meðan húsrúm leyfir. Við reiknum með afar skemmtilegri baðstofu-stemningu þarna á loftinu,“ segir Steinunn að lokum.
Prjónakvöldið hefst klukkan 19:00 og stendur til 21:00.
Facebook-viðburður prjónakvöldsins
